144. löggjafarþing — 139. fundur,  30. júní 2015.

meðferð sakamála og lögreglulög.

430. mál
[10:37]
Horfa

Frsm. allsh.- og menntmn. (Unnur Brá Konráðsdóttir) (S):

Hæstv. forseti. Ég mæli fyrir nefndaráliti allsherjar- og menntamálanefndar, en við leggjum til þrjár breytingartillögur við það frumvarp sem fyrir liggur sem varða í fyrsta lagi ákvæði í 26. gr. sem kveður á um handhafa lögregluvalds. Erum við að þrengja það nokkuð hér vegna þess að við teljum að ákærendur eigi almennt ekki að fara með lögregluvald. Það er brýnt að sporna við samruna lögreglu og ákæruvalds eftir því sem unnt er til þess að auka trúverðugleika beggja. Þess vegna er hér lögð til sú breyting að fella út úr ákvæðinu að löglærðir starfsmenn héraðssaksóknara fari með lögregluvald.

Í öðru lagi þurfum við að breyta gildistökuákvæðinu vegna þess að það þarf auðvitað tíma til að undirbúa þessar miklu breytingar. Málið var afgreitt úr nefnd í mars. Þá héldum við að það dygði að klára það hér í þinginu og að nýtt embætti gæti tekið til starfa 1. júlí, en augljóslega gengur það ekki upp. Þess vegna leggjum við til dagsetninguna 1. janúar 2016.

Það eru þó nokkur ákvæði í lögunum sem taka engu að síður þegar gildi, 22. og 23. gr. taka gildi 15. júlí 2015, þannig að hægt sé að auglýsa stöður og undirbúa stofnun embættisins á sem bestan hátt til að reyna að tryggja að það raski ekki rannsóknum á saksókn í þeim mikilvægu málaflokkum sem hér um ræðir.

Við leggjum í þriðja lagi til þá breytingu að peningaþvættisskrifstofa sem hýst er hjá ríkislögreglustjóra flytjist til sérstaks saksóknara þangað til embættið hefur verið stofnað. Það er liður í því að uppfylla kröfur sem Financial Action Task Force (FATF) hefur gert til slíkra stofnana og vonumst við til að það verði samþykkt.

Undir álitið skrifa hv. þingmenn Helgi Hrafn Gunnarsson og Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir, með fyrirvara sem lýtur að fjármögnun embættisins. Aðrir þingmenn sem undir þetta álit rita eru sú sem hér stendur og hv. þingmenn Páll Valur Björnsson, Líneik Anna Sævarsdóttir, Elsa Lára Arnardóttir, Jóhanna María Sigmundsdóttir og Vilhjálmur Árnason.