144. löggjafarþing — 139. fundur,  30. júní 2015.

lokafjárlög 2013.

528. mál
[10:49]
Horfa

Frsm. fjárln. (Vigdís Hauksdóttir) (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Já, þá er það upplýst hér að það er bara stjórnarandstaðan sem má gagnrýna. Þingmenn ríkisstjórnarflokkanna mega ekki gagnrýna stjórnarandstöðuna. Það er bara ágætt að fá það fram í eitt skipti fyrir öll.

Hv. þm. Oddný Harðardóttir veit það jafn vel og ég að ekki var búinn til neinn ágreiningur í þessu máli enda fannst mér það mjög undarlegt því að frumvarpið var lagt fram í þinginu af núverandi hæstv. fjármálaráðherra Bjarna Benediktssyni og var það nánast óbreytt frá tíð fyrri ríkisstjórnar. Það er þverpólitísk sátt um að koma þessum lögum til framkvæmda. Þess vegna benti ég á þann pólitíska hráskinnaleik sem stjórnarandstaðan leikur nú, og þá er ég aðallega að tala um hv. þingmenn Vinstri grænna og Samfylkingarinnar, þannig að það sé sagt.

Hv. þingmaður fór yfir það að síðasta ríkisstjórn hefði staðið fyrir fordæmalausum aðgerðum. Ég tek undir það því að á haustdögum 2008 varð bankahrun, en það var ekki þar með sagt að farið hafi verið í það að hlífa þeim sem áttu raunverulega um sárt að binda, af því að þingmaðurinn var að reyna að bera af sér blak hvað það varðar. Í fyrsta skipti í Íslandssögunni var farið inn í grunnbætur ellilífeyrisþega og öryrkja og þær skertar um 16 milljarða. Á sama tíma var með hægri hendinni ríkisstjórnin að sækja um aðild að ESB. Farið var af stað með fordæmalaust ferli sem sneri að því að breyta stjórnarskránni og svo framvegis, virðulegi forseti. Ekki var verið að hugsa um grunnþjónustuna. Ég sem formaður fjárlaganefndar veit manna best hvernig heilbrigðiskerfið var þegar þessi ríkisstjórn tók við, það var rjúkandi rústir — rjúkandi rústir, bæði rekstur Landspítalans og heilbrigðisstofnanir úti á landi þar sem búið var að skera inn að beini.