144. löggjafarþing — 139. fundur,  30. júní 2015.

lokafjárlög 2013.

528. mál
[10:59]
Horfa

Össur Skarphéðinsson (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Ég er viss um að hv. þm. Vigdís Hauksdóttir getur fengið ráð og aðstoð og liðsinni hjá hæstv. forsætisráðherra sem er kominn í hús til þess að skýra þetta. Staðreyndin er sú, fyrst hv. þingmaður vill hafa þetta á þessu plani, að allt það sem hv. þingmaður sagði hérna, jafnvel þó að hún tæki Icesave 1 og 2 og legði saman, þá er það lægri upphæð en hæstv. forsætisráðherra og ríkisstjórn hans er núna að gefa í afslátt gagnvart kröfuhöfunum. Við erum þessa dagana að tala um stöðugleikaskatt sem á að nema 862 milljörðum kr. Það kemur í ljós að enginn borgar stöðugleikaskatt. Það er önnur leið sem ekki var greint frá fyrr en eftir kynningarfundinn í Hörpu. Hún leggur sig á um 400 milljarða, 450 segir hæstv. forsætisráðherra. Með öðrum orðum, það er verið að gefa kröfuhöfum um 400 milljarða afslátt. Hvað finnst hv. þingmanni um það? Mætti þá kalla þessa ríkisstjórn ríkisstjórn kröfuhafanna? Ég geri það ekki en hv. þingmaður notar þau orð og við höfum rætt það áður.

Hv. þingmaður svaraði hins vegar ekki hinum efnislegum spurningum mínum (VigH: Jú.) varðandi lokafjárlögin. Nei, hún gerði það ekki. Ég spurði með hvaða hætti hún eða fjárlaganefnd, eftir atvikum, hygðist bregðast við og hvaða tæki hún hefði til þess að beita sér gagnvart því þegar það sem kemur fram í nefndaráliti hennar gerist að einstaka stofnanir, ég nefndi hjúkrunarheimili á Austfjörðum sem dæmi, fara margfalt fram úr áætlun. Hvað gerir fjárlaganefnd við því? Það kemur ekki fram í nefndarálitinu.

Í annan stað kemur fram að fjárlaganefnd er gagnrýnin á ýmsar leiðbeiningar sem koma frá fjármálaráðuneytinu. Greint var frá því í nefndarálitinu að vinnuhópur var settur til þess að skýra það mál og menn væru enn þá hugsi yfir því. Það eru engar breytingartillögur við lokafjárlögin. Er það þannig að undir forustu hv. þingmanns er bara allt tekið hrátt frá fjármálaráðuneytinu? Er fjárstjórnarvaldið ekki hjá Alþingi (Forseti hringir.) og hefur Alþingi ekki meðvitað reynt að taka sér meira vald?