144. löggjafarþing — 139. fundur,  30. júní 2015.

lokafjárlög 2013.

528. mál
[11:22]
Horfa

Höskuldur Þórhallsson (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Í þeirri skýrslu sem lögð var fram árið 2009 kom fram að hagvöxtur, að mig minnir árið 2012, nú vitna ég bara í skýrsluna, hafi átt að nást um 4,4% en hann var ekki nálægt því. Ég nefndi það að markmiðin sem voru lögð fram árið 2009 náðust ekki. Hver er besti vitnisburðurinn um að þau hafi ekki náðst? Jú, ríkisstjórnin sjálf endurskoðaði þau markmið vegna þess að það lá fyrir að þau mundu ekki nást árið 2011. Ég tók eftir því að þingmaðurinn nefndi að það voru markmiðin sem komið var fram með 2011 sem hefðu náðst, en það voru allt önnur, vægari og lakari markmið en voru lögð fram árið 2009. Ég fer algjörlega rétt með.

Varðandi ummæli hv. þm. Vigdísar Hauksdóttur nefndi þingmaðurinn það sérstaklega sem rök fyrir því að hún færi hér með staðlausa stafi að hallalausum fjárlögum hefði víst verið náð á síðasta kjörtímabili. Ég leyfi mér að benda á að þessi einu rök sem ég hef heyrt, þrátt fyrir fullyrðingar um margt annað, standast ekki að mínu mati. Síðasta ríkisstjórn, þrátt fyrir yfirlýsingar, náði ekki hallalausum fjárlögum, því miður. Ég kann ekki ríkisreikninginn utan að eða lokafjárlögin, en ég tók mig til á síðasta kjörtímabili og las hann, ég meira að segja las fleiri gögn eins og Icesave-samningana og öll þau fylgiskjöl sem átti að halda leyndu undir þakskeggi yfir á nefndasviði, ég las þetta allt. Það er líka alveg á hreinu að þegar menn fullyrða svona verða þeir að koma með betri rök og vísa í önnur gögn en þetta eina, sem ég hef þó reynt mitt ýtrasta til að hrekja úr þessum ræðustól.