144. löggjafarþing — 139. fundur,  30. júní 2015.

lokafjárlög 2013.

528. mál
[11:24]
Horfa

Steingrímur J. Sigfússon (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Ég er ekki viss um að hv. þingmaður hafi heyrt ræðu mína og sennilega alls ekki ræðu hv. þm. Vigdísar Hauksdóttur, a.m.k. var hann ekki hér í salnum. (HöskÞ: … hlustaði.) Hv. þm. Vigdís Hauksdóttir strunsaði út úr salnum þegar hún hafði lokið máli sínu (HöskÞ: Nei, þetta er nú ósanngjarnt.) þannig að það er ekki við — (HöskÞ: Þetta er ósanngjarnt.)(Gripið fram í: Hún gerði það.) hún gerði það. (Forseti hringir.) (HöskÞ: Nei, nei. ) Við getum ekki gert að því þótt hún, (Gripið fram í.) við getum ekki gert að því (Forseti hringir.) þótt hún hafi ekki heiðrað okkur með viðveru sinni. (Forseti hringir.)

Það er rangt, herra forseti, að ég hafi sérstaklega fært það fram sem rök sem hv. þingmaður vísaði í. Annað af tveimur eða þremur dæmum sem ég tók um staðleysu sem hv. formaður fjárlaganefndar, Vigdís Hauksdóttir þingmaður, fór með var orð hennar um að með tilkomu þessarar ríkisstjórnar hefði markið fyrst verið sett á hallalaus fjárlög, það var það sem ég tilgreindi sérstaklega. Ég orðtók hv. þingmann og get haft það innan gæsalappa, því að þetta var það sem hv. þingmaður sagði, að með tilkomu þessarar ríkisstjórnar hefði markið verið sett á hallalaus fjárlög, sem allir vita að er ekki rétt og var gert strax árið 2009.

Það eru auðvitað ýmsar aðferðir til að skoða afkomu ríkissjóðs, þar á meðal útkoma ársins 2009, t.d. hvort við viljum bera árin saman með eða án óreglulegra liða. Það er oft gagnlegt til að reyna að greina betur undirliggjandi raunverulega afkomu ríkisins, tekjur og gjöld, að halda tilteknu mengi óreglulegra liða, sem þá eru skilgreindir og eru hinir sömu á hverju ári, utan við dæmið, vegna þess að þeir sveifla afkomunni oft upp og niður. Það eru bæði áföll þegar þarf að gjaldfæra töp eða annað því um líkt eða leggja peninga inn í Íbúðalánasjóð og afskrifa það samstundis, eins og við lentum í, og svo yfir í hina áttina þegar allt í einu dettur happdrættisvinningur inn á borð ríkisins, eins og 19% eignarhlutur í Landsbankanum og er eignfærður, tekjufærður hjá ríkinu á sama ári.

Ef við tökum ákveðið mengi óreglulegra liða frá og berum þannig saman árin 2009–2013 (Forseti hringir.) var afkoma ríkisins jákvæð um 9 milljarða á árinu 2013. (Forseti hringir.) Tókst þá ekki að ná ríkisbúskapnum í jöfnuð? Jú, ég held það.