144. löggjafarþing — 139. fundur,  30. júní 2015.

náttúruvernd.

751. mál
[11:32]
Horfa

Katrín Jakobsdóttir (Vg):

Herra forseti. Saga þessara laga, náttúruverndarlaganna, er orðin alllöng og lengri en ég hefði kosið, svo það sé nú sagt.

Ég kveð mér fyrst og fremst hljóðs til að gera grein fyrir því að ég hefði auðvitað kosið að þessi lög hefðu tekið gildi þegar þau áttu að taka gildi. Sátt var um það í umhverfis- og samgöngunefnd á síðasta þingi að málinu yrði frestað eftir að þáverandi hæstv. umhverfis- og auðlindaráðherra hafði lagt til að lögin yrðu afturkölluð, mér finnst mikilvægt að við höldum því til haga. Þá náðist um það sátt í nefndinni að það yrði ekki gert heldur yrði gildistöku laganna frestað. Mér þykir það miður að fresta eigi þessum lögum enn og aftur því að umhverfi okkar hefur breyst með þeim hætti að það er knýjandi þörf á því að við fáum ný náttúruverndarlög í gildi. Það er alveg sama hvort við ræðum þá sérstaklega um verndarákvæði á borð við sérstaka vernd eða hvort við ræðum varúðarregluna sem núna er rætt um í stjórnarskrárnefnd að verði orðuð með einhverjum hætti í stjórnarskrá í nýju umhverfisréttarákvæði. Þar hafa fulltrúar allra flokka tjáð sig með þeim hætti að þeir vilji sjá meginreglur umhverfisréttar settar með einhverjum hætti inn í stjórnarskrá. Varúðarreglan er ein af þeim meginreglum. Um það stóð nú m.a. styrinn á sínum tíma, um varúðarregluna og ákvæðin um sérstaka vernd. Ég held að við þurfum að horfast í augu við að gildandi náttúruverndarlög eru langt á eftir samtímanum. Því fyrr sem ný náttúruverndarlög geta tekið gildi, þeim mun betra.

Ég fagna því að gildistökunni er þó ekki frestað meira en hæstv. ráðherra gerði hér grein fyrir. Ég legg áherslu á það að það má ekki verða lengri töf á þessu máli. Þetta eru gríðarlega mikilvægir hlutir. Ég vil líka nefna almannaréttinn sem var hvað mest til umræðu hér á sínum tíma og því miður eru þau mál enn í ólestri.

Nýlega las ég fréttir um að setja ætti upp gjaldtökuhlið við Seljalandsfoss. Hæstv. iðnaðar- og viðskiptaráðherra féll sem betur fer frá hugmyndum um náttúrupassa sem miðuðu líka að því að skerða almannarétt. Ég held að það sé líka löngu tímabært að menn setji almannaréttinn með fastari hætti inn í náttúruverndarlög og miði hann þá fyrst og fremst við hagsmuni náttúrunnar en ekki hagsmuni ferðaþjónustuaðila. Ég vil líka nefna að ef okkur lánast að setja inn ákvæði um auðlindir í sameign þjóðarinnar þar sem gert er ráð fyrir að hægt sé að taka gjald af auðlindum, er auðvitað eðlilegt að horfa til þess að þeir sem nýta auðlindina greiði gjaldið. Það eru þá í tilfelli ferðaþjónustunnar þeir ferðaþjónustuaðilar sem selja þessa auðlind, selja fagurfræði, fagurfræðilegt gildi þessarar auðlindar sem við eigum í íslenskri náttúru. Við eigum auðvitað að umgangast almannaréttinn sem rétt fólks til frjálsrar farar um landið þar sem ekki þarf að greiða fyrir för sína um landið. En að sama skapi þurfum við að hafa í huga sjónarmið um að upp geta komið þær aðstæður að takmarka þurfi almannaréttinn út frá sjónarmiðum náttúruverndar. Það þekkjum við víða um heim.

Ég vil nota þetta tækifæri til að segja að það er knýjandi þörf á að við endurskoðum þetta lagaumhverfi. Sú endurskoðun hefur legið fyrir. Það voru ákveðin atriði sem fulltrúar í umhverfis- og samgöngunefnd ræddu á sínum tíma að þyrfti að skoða. Ég vil nota tækifærið og hvetja hæstv. ráðherra til dáða, að við fáum ný og nútímaleg náttúruverndarlög í gildi eigi síðar en um miðjan nóvember á þessu ári. Það er ekki bara vegna þróunar í umhverfisrétti, það er líka vegna þróunar í samfélaginu. Við horfum á það í ferðaþjónustunni og annars staðar að það er gríðarleg þörf á breytingum á þessu sviði.

Þetta eru fyrst og fremst þær athugasemdir sem ég vil koma með hér, herra forseti.