144. löggjafarþing — 139. fundur,  30. júní 2015.

náttúruvernd.

751. mál
[11:41]
Horfa

Katrín Júlíusdóttir (Sf):

Virðulegi forseti. Það náðist gríðarlega mikilvægur áfangi hér þegar við samþykktum nýja löggjöf til náttúruverndar 2013. Mikil vinna hafði farið fram og mikill undirbúningur átt sér stað, mikið samráð einnig. Ákveðin atriði í þeirri löggjöf voru umdeild en engu að síður voru menn almennt sammála um það að gengið hefði verið gríðarlega langt í átt að þeim sjónarmiðum þegar verið var að ljúka við málið í þinginu á sínum tíma. Þáverandi formaður umhverfisnefndar, Mörður Árnason, fyrrverandi alþingismaður og nú varaþingmaður, má eiga það að hann vann gríðarlega vel þegar hann reyndi að ná sem bestri samstöðu um nýja náttúruverndarlöggjöf.

Hv. þm. Svandís Svavarsdóttir gaukaði að mér smáupplýsingum áður en ég kom hingað í ræðustól um það hversu oft náttúruverndarlög hefðu verið uppfærð og samþykkt í þinginu. Þau voru fyrst samþykkt á 75. löggjafarþingi 1955–1956. Þá var það Bjarni Benediktsson sem lagði þau fram. Þau stóðu í 15 ár, eða til 1970 þegar Gylfi Þ. Gíslason flutti náttúruverndarlög hér. Þau stóðu síðan í 28 ár og þá voru sett ný lög á þinginu 1998–1999 sem stóðu aftur í 14 ár. Það er áhugavert að sjá þetta vegna þess að þetta sýnir okkur og við vitum það alveg að heilmikil vinna lá líka að baki þegar hver sú löggjöf sem ég hef hér nefnt var samþykkt.

Þegar kom að ríkisstjórnarskiptum ákvað núverandi ríkisstjórn að í staðinn fyrir að reyna að vinna með þau atriði sem helst voru umdeild að létta sér lífið og taka ekki á þeim heldur koma með frumvarp sem fæli í sér að þau yrðu afskrifuð með öllu. Sem betur fer gerðist það í nefndinni þvert á alla flokka, eftir að hafa fengið umsagnir og gesti, að ákveðið var að stöðva þá för ríkisstjórnarinnar þegar menn áttuðu sig á því að þótt einstaka atriði löggjafarinnar væru umdeild — þó það nú væri að það gerðist í löggjöf, við höfum séð annað eins í löggjöf hér á landi, menn hafa tekist á um einstaka þætti áður en aldrei hafa viðbrögðin verið slík að það eigi bara að hætta við gildistöku laganna — þá sá nefndin að að meginstofni til væri þetta góð löggjöf sem væri betri og hefði skýrari réttaráhrif og veitti betri umgjörð utan um náttúruvernd í landinu en sú staða að vera án gildistöku þessara nýju náttúruverndarlaga. Um það er samstaða og það er vel. Ég ætla mönnum ekki neitt annað en vilja vinna áfram í anda þeirrar samstöðu.

Það voru auðvitað töluverð vonbrigði þegar við áttuðum okkur á því í vetur að nefndin, sem hafði unnið að því að skilgreina átakafletina og þau atriði sem þurfti að skoða betur og hafði þar með öll samþykkt að fresta gildistöku laganna frá 2013 til 1. júlí nk., hafði ekki verið nægilega með í ráðum. Við áttum vissulega góða fundi með ráðuneytinu en þegar kom síðan að því að taka ákvörðun um hvað ætti að leggja fram sem breytingartillögur og til kynningar á vef ráðuneytisins þá vorum við ekki höfð með í ráðum. Það voru líka ákveðin vonbrigði þegar það fór að renna upp fyrir okkur að menn mundu ekki ná að ljúka endurskoðun á þessum ákvæðum. Því fór sem fór og hingað inn kom ósk um að þessu yrði enn á ný frestað.

Ég er ekki að tala gegn vandaðri málsmeðferð en menn hefðu getað nýtt tímann mikið betur. Það var gefinn töluverður tími, meira en ár. Ef mér reiknast rétt til hefðu menn getað nýtt 16 mánuði í þetta en þeir voru bara ekki nýttir nógu vel. Ég ætla að virða mönnum það þó, sem nú sitja, þ.e. þeim ráðherra sem nú situr í umhverfis- og auðlindaráðuneytinu, að það voru ráðherraskipti og hún hefur svo sem ekki komið að þessu allan tímann. Umhverfis- og auðlindaráðuneytið var skúffa í sjávarútvegs- og landbúnaðarráðuneytinu megnið af þessum tíma. Það er ekkert óeðlilegt að sökum þess hafi umhverfismálin og náttúruvernd verið sett til hliðar af ríkisstjórninni þegar á því stóð. Það er svo einfalt og menn þurfa bara að horfast í augu við það, viðurkenna það og halda áfram út frá því. Nú er kominn ráðherra í málið, allt í fínu lagi með það, og þá hljótum við að gera þá kröfu að nefndin verði núna höfð með í ráðum en það er ástæðan fyrir því að við samþykkjum að framlengja þetta til 15. nóvember.

Það var vel skilgreint í mjög góðu sameiginlegu nefndaráliti allrar nefndarinnar á vordögum 2014 hver væru helstu álitamálin. Nefndin er vel að sér í öllum þeim atriðum og því tel ég eingöngu til bóta fyrir málið ef nefndin skrifaði hreinlega breytingarnar við frumvarpið. Ég ætla að leggja það til að sá háttur verði hafður á. Ég þarf ekkert að fara yfir hvaða atriði þetta eru, það hefur verið gert hér í umræðunni. Þetta eru atriðin í nefndarálitinu frá því í fyrra. Það er fyrst og fremst, eins og hv. þm. Katrín Jakobsdóttir kom inn á, almannarétturinn og atriði sem snúa að honum. Það er varúðarreglan sem þarf að skoða vel og ætla ég svo sem ekki að fara efnislega í hana, ég ætla ekki að tefja tímann með því. Ég vil samt benda áhugasömum á að skoða nefndarálit umhverfis- og samgöngunefndar frá því á vorþingi 2014 vegna þess að þar eru öll þessi helstu álitamál dregin fram auk þess sem þar eru áhugaverðar upplýsingar. Utan almannaréttarins og varúðarreglunnar þá eru ákvæði um sérstaka vernd. Það voru ákveðin nýmæli í löggjöfinni sem sett voru 2013 og núna er verið að fresta gildistökunni á, þ.e. nýmæli í skipulagi friðlýsingar, friðunar og verndar þar sem var gert ráð fyrir heildstæðri náttúruminjaskrá. Síðan ætla ég að nefna utanvegaakstur og framandi lífverur.

Það kemur líka fram í þessu nefndaráliti að niðurstaða nefndarinnar sé sú að ekki beri að fella lögin í heild sinni úr gildi. Nefndin taldi að það þyrfti að byggja á þessari fyrirliggjandi vinnu og heildarhugmyndafræðinni sem hún byggir á og liggur lögunum til grundvallar. Út frá þeim sjónarmiðum verði breytingarnar unnar og reynt þannig að ná sem mestri sátt um málið. Auðvitað verður aldrei 100% sátt en við erum hér að reyna að nálgast hana sem mest við getum og sá vilji sem var fyrir því í nefndinni stendur enn. Ég ætla jafnframt að ítreka að þá er það auðvitað skýr krafa okkar að við komum að þessari vinnu og það verði ekki látið heilt ár líða aftur án þess að í þessu sé unnið enda gefur tíminn ekki tilefni til þess. Ég mæli með því að við skoðum það hreinlega að nefndin flytji frumvarpið sjálf en ekki ráðherra.

Að þessum orðum sögðum vil ég engu að síður segja það að lokum að við í stjórnarandstöðunni erum áfram tilbúin til að leggja okkar af mörkum til að þessi löggjöf megi verða sem mest og best og standa sem allra lengst.