144. löggjafarþing — 140. fundur,  30. júní 2015.

meðferð elds og varnir gegn gróðureldum.

512. mál
[12:22]
Horfa

Jón Þór Ólafsson (P):

Herra forseti. Eins og ég nefndi áðan er verið að troða ákvæði um fangelsisrefsingar inn í lög um sinubruna. Ég vil bara spyrja þá þingmenn sem ætla að greiða atkvæði gegn þessari breytingartillögu um að vísa þessu til hliðar og samþykkja að þetta eigi heima í almennum hegningarlögum. Ef menn eiga þátt í sinubruna sem stofnar fólki í hættu eða setur fólk og eigur þess með einhverjum öðrum hætti í hættu á slíkt bara heima í almennum hegningarlögum. Ég vildi spyrja hv. þingmenn í þessum sal hvers vegna þeir ætla að greiða atkvæði gegn því að vísa þessu ákvæði bara frá, hvers vegna þeir geri það. Og hv. þm. Vigdís Hauksdóttir sem talaði nú fyrir þessu hérna, ég sé ekki … (VigH: Hún er græn.) Hún er græn. (ÁsmD: Ég er líka grænn.) Annar grænn, hv. þm. Ásmundur Daði Einarsson. Geta aðrir þingmenn komið upp? Jú, það er annar þingmaður kominn hérna. Fleiri? Nei, í alvöru. Komið upp og segið hvers vegna þið viljið ekki samþykkja breytingartillöguna. Ég skora á ykkur. Komið upp. Ókei. Vonandi inn í framtíðina. Það er (Forseti hringir.) sams konar ákvæði varðandi fólksflutninga í atvinnuskyni þar sem einnig er verið (Forseti hringir.) að reyna að troða inn refsingu. Skoðum það (Forseti hringir.) áður en það verður um seinan að setja inn breytingartillögu og skipta um skoðun. Það er kannski erfitt að skipta um skoðun svona í miðri atkvæðagreiðslu.