144. löggjafarþing — 140. fundur,  30. júní 2015.

framleiðsla, verðlagning og sala búvöru o.fl.

694. mál
[13:02]
Horfa

Brynhildur Pétursdóttir (Bf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Mig langar aðeins að forvitnast og spyrja út í þessa breytingartillögu meiri hlutans sem snýr að úthlutun tollkvóta, sem mér og okkur í Bjartri framtíð finnst ekki vera skref í rétta átt, hvort breytingartillagan hafi verið borin undir einhverja, eða hvort hagsmunaaðilar hafi haft kost á að hafa eitthvað um hana að segja. Við furðum okkur á þessari breytingartillögu, þar sem í rauninni er verið að veita ráðherra heimild til að bjóða út tollkvótana í stað þess að varpa hlutkesti eins og margir hagsmunaaðilar hafa bent á að væri betri lausn. Mér finnst það ekki vera skref í rétta átt að festa þetta í sessi. Það er kannski engin ein leið endilega réttust þegar kemur að því að úthluta þeim takmörkuðu gæðum sem þessir tollkvótar eru, en þetta mundi ég segja að væri versta leiðin. Ég varð því vonsvikin að sjá þessa breytingartillögu og vil spyrja hv. þm. Þórunni Egilsdóttur hvers vegna nefndarmenn allir nema einn samþykkja þetta. Og hvort þau telji að þetta sé besta leiðin. Því að þarna er í rauninni verið að setja kostnaðinn sem þeir sem kaupa eða fá kvótana og borga fyrir umfram kvótana, það fer auðvitað út í verðlagið. Það eru því neytendur sem borga þetta á endanum.