144. löggjafarþing — 140. fundur,  30. júní 2015.

framleiðsla, verðlagning og sala búvöru o.fl.

694. mál
[13:06]
Horfa

Frsm. minni hluta atvinnuvn. (Eldar Ástþórsson) (Bf):

Virðulegi forseti. Ég mæli hér fyrir nefndaráliti mínu og Bjartrar framtíðar með breytingartillögu við þetta mál. Ég vil vekja sérstaka athygli þingmanna á því að verði tillaga meiri hluta atvinnuveganefndar í þessu máli samþykkt er verið að fara leið sem Neytendasamtökin, Samkeppniseftirlitið, Samtök verslunar og þjónustu og Félag atvinnurekenda hafa varað við og ályktað gegn.

Í tillögu meiri hlutans er með einni lítilli klausu verið að lögfesta þá aðferð að sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra verði skylt að bjóða út tollkvóta sé ásókn umfram kvóta, sem því miður er allt of oft tilfellið, í stað þess að hægt sé að láta hlutkesti ráða eins og leyfilegt er í núgildandi lögum. Tillaga meiri hlutans hefur í för með sér hærra vöruverð. Með því að bjóða út tollkvóta er verið að lögfesta auknar álögur á neytendur og hamla samkeppni í viðskiptum. Í stuttu máli gengur tillaga meiri hlutans út á aukna skattheimtu. Þessu má breyta með einföldum hætti, með því að samþykkja breytingartillögu þá sem ég mæli hér fyrir þar sem ráðherra er gert skylt að láta hlutkesti ráða, frekar en að bjóða út tollkvóta með tilheyrandi skattheimtu og kostnaði sem það hefur í för með sér fyrir neytendur.

Ég vil fá að lesa upp úr nefndaráliti því sem fylgir breytingartillögunni. Nú er hætt við að hlustendur verði varir við einhverja endurtekningu í málflutningi mínum en þetta er mikilvægt mál og þess vegna hvet ég þingmenn til að leggja við hlustir, með leyfi forseta:

„Minni hlutinn er ekki mótfallinn frumvarpinu en getur ekki stutt það þar sem meiri hlutinn hefur lagt til að við bætist ákvæði sem felli brott heimild ráðherra í 3. mgr. 65. gr. laganna til að láta hlutkesti ráða úthlutun þegar umsóknir berast um meiri innflutning en sem nemur tollkvóta.

Minni hlutinn leggur til breytingu á breytingartillögu meiri hlutans sem gengur í þveröfuga átt, þ.e. að heimild ráðherra til annars en að láta hlutkesti ráða í framangreindum tilvikum verði felld brott. Rökin fyrir þeirri tillögu eru dómar sem féllu nýverið í Héraðsdómi Reykjavíkur þar sem komist var að þeirri niðurstöðu að það að ráðherra hefði val um hvorri aðferð 3. mgr. 65. gr. væri beitt fæli í sér að hann hefði ákvörðunarvald um hvort skattur væri lagður á eða ekki. Minni hlutinn leggur til að orðin „eða leita tilboða í heimildir til innflutnings samkvæmt tollkvótum og skal andvirðið þá renna í ríkissjóð“ í 3. mgr. 65. gr. laganna falli brott og því skuli hlutkesti ráða ef tilboð berast umfram það sem tollkvóta nemur. Minni hlutinn telur óásættanlegt að lögfesta þá aðferð að tollkvótar séu boðnir út, enda fellur útboðskostnaður á neytendur. Þá er þessi aðferð ekki til þess fallin að auka samkeppni í verslun en markmið tollkvóta er einmitt að örva samkeppni með landbúnaðarvörur milli landa.“.

Minni hlutinn tekur undir það sjónarmið sem kom fram í skýrslu Samkeppniseftirlitsins frá árinu 2015 um samkeppni á dagvörumarkaði, að útboð á tollkvótum vegna innflutnings á kjöti, smjöri og ostum sé felld niður en verði það ekki gert leggur Samkeppniseftirlitið til að úthlutun verði án endurgjalds og að hlutkesti verði varpað sé ásókn umfram kvóta. Þá segir í skýrslunni að Samkeppniseftirlitið telji að með því að miða við hæsta verð í útboðum eins og gert hafi verið sé stuðlað að hærra matvöruverði.

Minni hlutinn tekur einnig undir með ýmsum hagsmunasamtökum, m.a. Neytendasamtökunum, Samtökum verslunar og þjónustu og Félagi atvinnurekenda, sem hafa bent á að útboðsleiðin vinni gegn almannahagsmunum, hækki vöruverð og hamli samkeppni. Neytendasamtökin hafa talið betri leið þegar eftirspurn er umfram framboð að láta hlutkesti ráða við úthlutun á tollkvótum frekar en að bjóða þá út, enda er ljóst að sá kostnaður sem útboðum fylgir lendir að hluta eða að fullu á neytendum.

Minni hlutinn telur aðfinnsluvert að meiri hlutinn leggi til svo veigamikla breytingu á frumvarpinu, þ.e. að tollkvótum verði ávallt úthlutað með útboðum, án þess að fram hafi farið ítarleg umræða í nefndinni og án þess að hagsmunaaðilum og viðeigandi stofnunum hafi gefist færi á að koma sjónarmiðum sínum á framfæri við nefndina. Minni hlutinn átelur þetta, einkum þar sem verið er að ræða um mikilvægt hagsmunamál fyrir neytendur.

Minni hlutinn leggur til breytingu við breytingartillögu meiri hlutans og er gerð grein fyrir henni í sérstöku þingskjali.

Að lokum vil ég segja: Ef við viljum láta hagsmuni almennings og neytenda ráða í þessu máli greiðum við að sjálfsögðu atkvæði með þessari breytingartillögu. Ef við viljum standa með samkeppni í viðskiptum greiðum við atkvæði með þessari breytingartillögu. Það er eina vitið, því að með því að greiða atkvæði með tillögu meiri hlutans, óbreyttri, er verið að leggjast á sveif með aukinni skattheimtu og álögum á neytendur.