144. löggjafarþing — 140. fundur,  30. júní 2015.

ríkisfjármálaáætlun fyrir árin 2016--2019.

688. mál
[13:46]
Horfa

Bjarkey Gunnarsdóttir (Vg):

Frú forseti. Ég tek undir það sem hér var sagt og tel að það sé ekki óeðlilegt, málið er í síðari umr., við skulum ekki gleyma því. Það eru bara tvær umræður um ríkisfjármálaáætlun, ekki þrjár, þannig að þetta er síðari umr. Það er afar sérstakt að formaður fjárlaganefndar, sem fer nú oft stórum orðum um ýmsa hluti um fjármál fyrri tíma, sjái sér ekki fært að vera hér og flytja það nefndarálit sem varð til eftir að málið var tekið inn til nefndar aftur að beiðni minni hlutans. Ég spyr því, frú forseti, hvort forseti hyggst kalla formann nefndarinnar hingað inn eða einhvern sem getur svarað spurningum. Ég tek undir að við þurfum þá bara að geyma málið, því að hér eru stórar spurningar eins og hér var sagt og þetta er risamál til margra ára. Þrátt fyrir að fram komi í áliti meiri hlutans að þetta sé svona síkvikt plagg eins og hér kemur fram, þetta sé síbreytilegt umhverfi, þá eru auðvitað grundvallarforsendur undirliggjandi sem stýra því hvernig ríkisstjórnin hyggst halda á málum næstu árin. Það er ekkert óeðlilegt að formaður fjárlaganefndar eða einhver annar sem telur sig til þess bæran svari því og þeim spurningum sem hér er óskað eftir að bera fram. Ég held því að kalla eigi viðkomandi til umræðunnar eða fresta umræðunni þar til á eftir þegar fólk hefur lokið máli sínu, en þó ekki þannig að ekki sé hægt að koma hér í aðra ræðu ef svo ber undir eftir að framsögumaður meirihlutaálits hefur flutt álit sitt eða sína ræðu.

Mig langar aðeins að fara aftur ofan í málið því að hérna eru auðvitað ákveðnir hlutir sem þarf að spyrja um og í ljósi þess að ég gerði að umtalsefni undir liðnum um störf þingsins niðurfærslu húsnæðisskulda upp á rúma 80 milljarða, þó að einungis sé gerð grein fyrir um 70 milljörðum í skýrslu hæstv. ráðherra, setur maður spurningarmerki við það þegar ríkisfjármálaáætlun næstu ára sýnir nánast enga formlega uppbyggingu til dæmis að fjárfestingu sem er mjög takmörkuð. Í launaforsendum og almannatryggingum er ekki gert er ráð fyrir hækkun umfram verðbólgu nema 1% en á sama tíma er ríkisstjórnin búin að setja tæpa 6 milljarða beint í vasa fólks sem átti ekki eða á ekki skuldir í dag í húsum sínum. En auðvitað voru þær til á þeim tíma þegar þessi viðmið voru á árunum sem sköpuðu réttinn til niðurgreiðslu skulda. En við stöndum frammi fyrir því að fólk sem borgar auðlegðarskatt, á hreinar eignir upp á 75 eða 100 milljónir, fær töluvert stórar fjárhæðir út úr þessari leiðréttingu á sama tíma og þessi ríkisfjármálaáætlun, eins og ég sagði, sýnir í rauninni ekki fram á það að hægt sé að reisa landspítala. Hún sýnir ekki fram á að hægt sé að hækka bætur almannatrygginga. Hún sýnir ekki fram á með hvaða hætti á að greiða niður lífeyrisskuldbindingar, hvort gera eigi það með rekstrarafgangi eða með lántöku o.s.frv. Það eru mjög margir hlutir í þessari áætlun sem í rauninni standast ekki.

Það sem olli mér vonbrigðum var að þegar við áttum hér orðastað við hæstv. fjármálaráðherra og málið fór aftur til nefndar lágu fyrir ákveðnir þættir sem hefðu getað, ekki sem hefðu getað, þeir gerðu það, þeir skýrðu málin enn frekar en þegar áætlunin varð til. En nefndarmenn og ráðherra kjósa að gera engar breytingar, sem er afar sérstakt. Ég tek undir með hv. framsögumanni minnihlutaálitsins, það er auðvitað mjög sérstakt að meirihlutafulltrúar skuli leggja þessa áætlun til óbreytta. Óbreytta, virðulegi forseti, þrátt fyrir að allar forsendur og ýmislegt hafi síðar litið dagsins ljós sem gaf ríkisstjórninni færi á að lagfæra áætlunina. Í staðinn segja menn: Þetta er bara síbreytilegt plagg. Þá er náttúrlega ekki óeðlilegt að spurt sé: Bíddu, eftir hverju þarf þá ráðherra fjármála að fara? Af hverju er hann bundinn? Þetta er ekki ásættanlegt og er heldur ekkert í anda laganna. Þingsköpin og lögin kveða á um allt aðra hluti en hér er verið að leggja til.