144. löggjafarþing — 140. fundur,  30. júní 2015.

ríkisfjármálaáætlun fyrir árin 2016--2019.

688. mál
[14:19]
Horfa

Frsm. minni hluta fjárln. (Oddný G. Harðardóttir) (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Stórir óvissuþættir eins og nýgerður kjarasamningur og ákvarðanir um skattalækkanir og áætlun um losun hafta hafa að einhverju leyti skýrst og hafa mjög mikil áhrif á ríkisfjármálaáætlun næstu árin. Við í minni hlutanum höfum sagt að við skulum taka þessa þingsályktunartillögu til baka því að það er ábyrgðarhluti þegar þing er búið að samþykkja þingsályktunartillögu að hv. þingmenn viti hvað þeir hafa samþykkt og af hverju þeir ætla að binda hæstv. ráðherra og hæstv. ríkisstjórn.

Í framhaldsnefndaráliti meiri hluta fjárlaganefndar segir, með leyfi forseta:

„Meiri hlutinn telur að fjármála- og efnahagsráðuneytið sé ekki enn í stakk búið til að meta fyrrgreind áhrif “, þ.e. kjarasamningar skattalækkanir og haftalosun, „inn í tillöguna áður en hún verður afgreidd á Alþingi en markmiðið sé að víkja ekki frá þeim stefnumiðum sem fram koma í ríkisfjármálaáætluninni.“

Af því að mér fannst ræða hv. þingmanns ekki mjög skýr vil ég spyrja hana þessarar einföldu spurningar og ég bið um einfalt svar: Eru stefnumiðin varðandi launa- og verðlagsforsendur á bls. 35, annars vegar stefnumiðið um kjarabætur fyrir ríkisstarfsmenn og hins vegar bætur almannatrygginga, nokkuð sem hæstv. fjármálaráðherra verður bundinn af við gerð fjárlagafrumvarps fyrir árið 2016? Eru það stefnumiðin sem meiri hluti fjárlaganefndar talar um efst á bls. 2 í framhaldsnefndarálitinu?