144. löggjafarþing — 140. fundur,  30. júní 2015.

ríkisfjármálaáætlun fyrir árin 2016--2019.

688. mál
[14:21]
Horfa

Frsm. meiri hluta fjárln. (Vigdís Hauksdóttir) (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Í upphafi vil ég segja að það er öllum frjálst að koma með þær breytingartillögur sem þeir vilja inn í hvaða mál sem þeir vilja. Hér er verið að gagnrýna að meiri hlutinn hafi ekki komið með breytingartillögur við þessa ríkisfjármálaáætlun. Ég er búin að lesa nefndarálit minni hluta fjárlaganefndar. Þar er ekki að finna eina einustu breytingartillögu. Ég skil því ekki hvers vegna gagnrýni á þessa þingsályktunartillögu er svo hávær.

Varðandi það sem þingmaðurinn vísar í efst á bls. 2 þá stend ég við það að þetta er stöðuplagg. Það væri mjög óábyrgt af mér sem formanni fjárlaganefndar að fara að tjá mig núna um þær hækkanir sem hv. þm. Oddný Harðardóttir fór yfir því að við vitum að það er ekki óhætt að rugga þeim báti sem snýr að BHM. Á meðan ekki er búið að semja við þá ríkisstarfsmenn sem voru í verkfalli og eru nú búnir að fá á sig lög kæri ég mig ekki um og vil ekki allra vegna tjá mig um þessi mál.

Varðandi eldri borgara og öryrkja veit þingmaðurinn hvernig hækkanir þeirra koma til samkvæmt lögum, þá er ég að vísa í lög um almannatryggingar. Þar er ákveðin reikniregla sem miðað er við og þessir aðilar fá hækkun miðað við neysluverðsvísitölu. Ég hef ekki séð neinar forsendur eða útreikninga á því hvernig það er. Ég bið hv. þingmenn að beina spurningum varðandi þessa tvo hópa til hæstv. félagsmálaráðherra. Ég held að sá hæstv. ráðherra verði hér í óundirbúnum fyrirspurnatíma, því að málið er einfaldlega ekki á mínu borði og ég vil ekki vera að tala hér um eitthvað sem verður svo rangtúlkað, (Forseti hringir.) það væri mjög óábyrgt af mér.