144. löggjafarþing — 140. fundur,  30. júní 2015.

ríkisfjármálaáætlun fyrir árin 2016--2019.

688. mál
[14:25]
Horfa

Frsm. meiri hluta fjárln. (Vigdís Hauksdóttir) (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég átta mig ekki á hvaða æsingur þetta er um þetta mál. En þingmaðurinn veit eins og allir aðrir að það verður nú fyrst að semja á almenna vinnumarkaðnum áður en farið er að hækka laun ríkisstarfsmanna. Það varð svo raunin og þróunin í þessum kjaraviðræðum.

Þegar hv. þingmaður talar um að það sé einhver breytingartillaga falin í minnihlutaálitinu þá get ég nú ekki séð það, hér stendur bara að ekki sé hægt að ræða þessa ríkisfjármálaáætlun, þannig að ég vísa því nú til föðurhúsanna eins og öðru, virðulegi forseti. Það er verkkvíði í stjórnarandstöðunni, það átti raunverulega að fresta öllum málum til haustsins og þetta er greinilega eitt af þeim málum. En ég legg áherslu á að þetta mál fari hér í gegn þannig að hægt sé að fara að snúa sér að þeim málum sem snúa að nútíðinni og framtíðinni, að við séum ekki alltaf að spóla hér í einhverjum gömlum hjólförum. Þetta mál átti að (Forseti hringir.) vera löngu afgreitt úr þinginu.