144. löggjafarþing — 140. fundur,  30. júní 2015.

ríkisfjármálaáætlun fyrir árin 2016--2019.

688. mál
[14:29]
Horfa

Frsm. meiri hluta fjárln. (Vigdís Hauksdóttir) (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Annaðhvort eru þingmenn orðnir svo þreyttir hér á þessu vorþingi eða sitja í salnum með lokuð eyru. Hér er spurt nákvæmlega um það sem ég fór yfir í ræðu minni. Það var hvernig hægt sé að plana fram í tímann og hvernig það verður þegar opinberu fjármálin verða að lögum.

Virðulegi forseti. Ég hef engar áhyggjur af því, þ.e. ef þingmenn geta tekið sig saman í andlitinu og hleypt málum í gegnum þingið. Það þýðir ekkert að vera að hugsa um það að gera frumvarpið um opinber lög að lögum ef það á að vera með því vinnulagi eins og það hefur birst okkur hér í vor, bara ómögulegt, því aðalfjárlagaumræðan á að færast fram á vorið og svo á að taka seinni umferð að hausti, eins og málæðið er búið að vera í vetur, virðulegi forseti. Talað hefur verið í tæpa fimm daga í liðnum um fundarstjórn forseta, og þá er þingið ekki í stakk búið til þess að takast á við breytingar af þessu tagi. Það verður bara að viðurkennast og það verða allir að hafa augun opin með það hvernig það er.

Svo spurði þingmaðurinn um rammana og hvers vegna væri ekki skipt eftir ráðuneytum. Ég fór yfir það líka í ræðu minni að það væri ekki í þessari þingsályktunartillögu því það mundi kveða á um það í frumvarpinu um opinber fjármál, sem er ekki orðið að lögum og vitað var upphaflega að það yrði ekki. Farið er yfir það í nefndarálitinu, farið er yfir það í þingsályktunartillögunni sjálfri, búið er að fara yfir það í öllum mínum þingræðum, síðast núna, í framsöguræðu minni með málinu. Nú sýnist mér á öllu að annaðhvort séu þingmenn orðnir svona þreyttir á að vera hér og standa í málþófi eða hreinlega sitja þeir í salnum með lokuð eyru, því miður.