144. löggjafarþing — 140. fundur,  30. júní 2015.

ríkisfjármálaáætlun fyrir árin 2016--2019.

688. mál
[14:34]
Horfa

Bjarkey Gunnarsdóttir (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Fyrst er að nefna að maður gæti spurt sig hvort þessi þingsályktunartillaga sé sett fram til að uppfylla lögin. Hv. formaður fjárlaganefndar talar mikið um aga og vönduð vinnubrögð, um málæði stjórnarandstöðunnar og að málið sé fallið á tíma. Ef aldrei hefur átt að breyta neinu í áætluninni skiptir ekki máli hvort hún er samþykkt í dag eða fyrir tveimur mánuðum síðan vegna þess að ríkisstjórnin og hv. fjárlaganefnd hafa haft tækifæri til þess að breyta henni. Það gerir áætlunina ekkert minna ómarktæka núna en þegar hún var lögð fram að ekki sé búið að afgreiða hana í ljósi þess að meiri hluti nefndarinnar hefur ákveðið, þrátt fyrir staðreyndir sem á borðinu liggja, að breyta henni ekki. Það skiptir því í sjálfu sér ekki máli.

Hv. formaður fjárlaganefndar hefur sterkar skoðanir á flestum hlutum er varða fjárlög og fjármálaáætlanir og annað slíkt. Gert er ráð fyrir forinngreiðslu í lífeyrisskuldbindingar og er talað þar um 5 milljarða. Mig langar til þess að spyrja formann fjárlaganefndar um það hvernig hún skilur það: Ætlar ríkissjóður að taka lán fyrir þessu eða verður þetta frátekið í formi rekstrarafgangs hverju sinni, þ.e. á hverju ári frá því að byrjað verður að greiða niður eða greiða inn á þessar lífeyrisskuldbindingar? Þær eru eins og við þekkjum mjög miklar og er nauðsynlegt að finna eitthvað út úr því.

Í annan stað langar mig til þess að spyrja hv. þingmann um S-merktu lyfin sem við höfum mikið rætt, og fá fram viðhorf hennar gagnvart því máli: Telur hún að þar höfum við náð einhvers konar jafnvægi eða er þar komin einhver uppsöfnuð þörf sem við þurfum að mæta með auknum framlögum? Hvernig lítur hún á það mál?