144. löggjafarþing — 140. fundur,  30. júní 2015.

úrskurðarnefnd velferðarmála.

207. mál
[15:27]
Horfa

Andrés Ingi Jónsson (Vg):

Virðulegur forseti. Ég vil halda áfram að benda á sjónarmið minni hluta velferðarnefndar sem fram koma í nefndaráliti minni hlutans, og þá sérstaklega staldra við athugasemdir umboðsmanns barna sem segir í umsögn sinni, með leyfi forseta:

„Þrátt fyrir viðleitni sem fram kemur í breytingartillögunni getur umboðsmaður barna ekki séð betur en að þegar litið er heildstætt á málið sé í rauninni verið að taka skref afturábak fyrir barnavernd í landinu.“

Það eru afdráttarlaus ummæli sérfræðings á sviðinu sem hlýtur að eiga að hlusta á, sérstaklega þegar litið er til þess að í nefndaráliti meiri hluta velferðarnefndar stendur, með leyfi forseta:

„Meiri hluti nefndarinnar telur þó rétt að við áframhaldandi endurskoðun á stjórnsýslu velferðarmála verði miðað við að ráðherra úrskurði í kærumálum nema sérstök rök standi til þess að úrskurðarvald sé hjá sjálfstæðri úrskurðarnefnd.“

Ég tel þessi ummæli umboðsmanns barna benda til þess að hér séu sérstök rök til þess að minnsta kosti að staldra við í einhvern tíma og leyfa barnaverndarmálum að njóta vafans á meðan hin sameinaða nefnd hefur störf og mögulega við síðari endurskoðun þessara mála að færa barnaverndarmál inn í sameinaða nefnd.