144. löggjafarþing — 140. fundur,  30. júní 2015.

Menntamálastofnun.

456. mál
[16:33]
Horfa

Páll Valur Björnsson (Bf):

Hæstv. forseti. Ég kem upp til að skýra það hvers vegna ég er með meiri hlutanum á álitinu. Ég get alveg tekið undir margt sem kemur fram í áliti minni hlutans, en svona til að árétta það hvernig hægt er að auka og hafa betri vinnubrögð, þá hefði mátt gera þetta betur. Það sem sló mig fyrst þegar við fórum að ræða þessi mál í allsherjar- og menntamálanefnd var það hversu lítið samráð manni fannst hafa verið við hlutaðeigandi aðila í samfélaginu. Meðal annars kom það fram hjá gestum að eftir að frumvarpið var lagt fram á vef ráðuneytisins þá kom fjöldi umsagna frá hinum og þessum sem komu með athugasemdir en ekki var tekið tillit til þeirra. Mér fannst það mjög miður. Það virðist vera svolítið einkennandi fyrir öll þessi frumvörp, kannski ekki öll, það er kannski of djúpt í árinni tekið að segja það, en lítið samráð er haft í mörgum málum.

Ástæðan fyrir því að ég styð þetta mál er sú að mér finnst framsögumaður málsins, hv. þm. Líneik Anna Sævarsdóttir, hafa unnið mjög gott starf og fullt af breytingartillögum hafa verið gerðar til að koma til móts við athugasemdir og ábendingar frá hinum og þessum aðilum sem málið varðar. Um hlutverk Menntamálastofnunar segir, í 1. gr. frumvarpsins, með leyfi forseta:

„Menntamálastofnun er stjórnsýslustofnun á sviði menntamála sem stuðla skal að auknum gæðum skólastarfs og framförum í þágu menntunar í samræmi við lög og stefnu stjórnvalda, bestu þekkingu og alþjóðleg viðmið.“

Mér finnst gríðarlega mikilvægt, þótt auðvitað sé hægt að finna að öllu og finna alls kyns agnúa á svona málum, að við stöndum saman þegar við erum að setja svona mikilvæga stofnun af stað, að við fylkjum okkur á bak við það, fylgjumst vel með henni, veitum henni aðhald og svo getum við eftir einhvern ákveðinn tíma hugsanlega komið með breytingartillögur til að bæta hana. Þess vegna styð ég málið af því að ég vil standa á bak við þessa stofnun þrátt fyrir, eins og kom fram í máli hv. þm. Bjarkeyjar Olsen Gunnarsdóttur, að ýmsir ágallar eru, en það er á öllum málum og það er aldrei hægt að gera svo vel að öllum líki. En eins og ég hef sagt tel ég það mjög mikilvægt veganesti fyrir starfsmenn stofnunarinnar og okkur öll að þetta fari vel af stað og fái stuðning. Svo getum við gert breytingar síðar meir.

Mig langar að nefna aðeins forstjóraráðninguna. Auðvitað er það kannski ámælisvert, en maður skilur það í ljósi stöðunnar. Þetta er vald sem ráðherrann hefur og það er ekkert við því að gera. Ég hefði að sjálfsögðu viljað sjá starfið auglýst og kannski hefði sá sem ráðinn hefði verið verið með meiri fagþekkingu á sviði mennta og kennslu, eins og hefur komið fram í gagnrýni.

En ég styð málið og vonandi á stofnunin eftir að dafna og vera okkur til sóma í framtíðinni.