144. löggjafarþing — 140. fundur,  30. júní 2015.

innflutningur dýra.

643. mál
[16:57]
Horfa

Jóhanna María Sigmundsdóttir (F):

Hæstv. forseti. Ég vil byrja á að þakka nefndinni fyrir vinnu sína. Ég er mjög ánægð með þá gesti sem kallaðir voru fyrir nefndina til þess að ræða þetta mál.

Ég lýsi yfir ánægju minni með það sem fram kemur í nefndaráliti meiri hlutans, að í c-lið 2. gr. verði kveðið á um að ekki verði heimilt að flytja innflutt erfðaefni holdanautgripa úr einangrunarstöð en hins vegar megi flytja þaðan þá gripi sem vaxið hafa af innfluttu erfðaefni í einangrunarstöð með leyfi yfirdýralæknis að uppfylltum nánar tilgreindum skilyrðum. Þetta er í rauninni það sem talað hefur verið um ef farin væri leið samkvæmt svokallaðri tillögu A. Einnig er ég mjög ánægð með að hér komi fram það sem mikið var til umræðu þegar mælt var fyrir málinu, að sóknarfæri felist í því fyrir íslenskan landbúnað að stunda hér búskap af holdanautgripum og að gera þurfi margt í viðbót við innflutning á erfðaefni til að bæta og efla nautakjötsframleiðslu og bæta afkomu í greininni. Einnig finnst mér jákvætt það átak sem meiri hlutinn hvetur til að verði gert til að auka fagmennsku, góða meðferð búfjár og almennt góða búskaparhætti í hjarðbúskap.

Þá vil ég taka undir með meiri hluta nefndarinnar sem leggur áherslu á að fyllstu varúðar skuli gætt við undirbúning og framkvæmd innflutnings á erfðaefni samkvæmt frumvarpinu og að taka skuli mið af tillögu A í meginatriðum hvað varðar tilhögun og kröfur til innflutnings, um framkvæmd á innflutningi erfðaefnis og kröfur til aðstöðu í einangrunarstöð, þá sérstaklega því sem kemur bersýnilega í ljós í nefndaráliti, að sýna beri varúð og að hafa þurfi mjög góða vöktun með sjúkdómum þegar unnið sé að þessu.

Virðulegi forseti. Ég kem aðallega hér upp til þess að leggja áherslu á að í þessu frumvarpi er aðeins verið að tala um erfðaefni holdanauta. Ef þetta frumvarp ætti að ganga lengra, svo sem til innflutnings á öðrum búfjárkynjum eða jafnvel mjólkurkúakyni, mundi ég standa með meiri hluta íslenskra kúabænda. Þeir tóku þátt í skoðanakönnun Landssambands kúabænda fyrir nokkrum árum og höfnuðu þeirri hugmynd.