144. löggjafarþing — 140. fundur,  30. júní 2015.

verndarsvæði í byggð.

629. mál
[17:31]
Horfa

Svandís Svavarsdóttir (Vg) (andsvar):

Forseti. Ég þakka hv. þingmanni ræðuna. Hv. þingmaður kemst að þeirri niðurstöðu með yfirferð sinni að tilgangur laganna hafi verið bæði brýnn og mikilvægur vegna þess að hann eigi sér stoð í samstarfsyfirlýsingu ríkisstjórnarflokkanna, en fer kannski ekki orðum um efnislegar ástæður þess að málið kemur fram. Ég vil spyrja hann hvort hann eigi í huga sér einhver dæmi um heildir eða byggðarheildir sem liðið hafa sérstaklega fyrir núverandi löggjöf, bæði að því er varðar lög um minjavernd og skipulagslög. Eru einhverjar þær gloppur í löggjöfinni sem tilteknar byggðarheildir hafa liðið fyrir sem nú er verið að taka á?

Málið var sent til umsagnar til umhverfis- og samgöngunefndar. Eins og fram kom í máli hv. þingmanns og formanns nefndarinnar var ekki talin ástæða til þess að nefndin yrði við óskinni um umsögn. Vil ég því spyrja hv. þingmann hvort hann geti tekið saman í stuttu máli afstöðu gesta sem komu til nefndarinnar að því er varðar afstöðu til þessa máls. Í máli hans kemur fram að svo hafi verið að sitt sýndist hverjum. Sjálf minnist ég þess ekki að hafa heyrt stuðning við málið meðal þeirra gesta sem komu á fund nefndarinnar, og er ég þar að tala bæði um Reykjavíkurborg, Skipulagsstofnun og Samband íslenskra sveitarfélaga. Ég spyr þess vegna hv. þingmann: Hvaða umsagnaraðilar studdu málið samkvæmt hans minni?