144. löggjafarþing — 140. fundur,  30. júní 2015.

framleiðsla, verðlagning og sala búvöru o.fl.

694. mál
[17:46]
Horfa

sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra (Sigurður Ingi Jóhannsson) (F) (um atkvæðagreiðslu):

Virðulegi forseti. Ég vil þakka nefndinni fyrir að afgreiða málið og hafa farið vel yfir það. Varðandi þá tillögu sem hér hefur verið kynnt frá minni hlutanum er varðar uppboð eða hlutkesti verður að segjast eins og er að hlutkestisleiðin hefur verið reynd. Hún endaði í því að einn aðili, stór aðili var með margar kennitölur og hirti allt, allan kvótann. Í því felst engin samkeppni, í því felst engin neytendavernd.

Við erum hér að leggja til breytingu vegna þess ástands að málaferli eru í gangi, búið að vísa máli til Hæstaréttar. Ef sú niðurstaða reynist með einhverjum hætti þurfum við að bregðast við því næsta vetur, en til þess að framkvæmdarvaldið sé með lagalegu hliðina sín megin leggjum við til að fella út aðra leiðina, halda einni. En hlutkestisleiðin (Forseti hringir.) er ekki eins ljómandi góð og hún hljómar í fyrstu.