144. löggjafarþing — 140. fundur,  30. júní 2015.

verndarsvæði í byggð.

629. mál
[17:56]
Horfa

Bjarkey Gunnarsdóttir (Vg):

Herra forseti. Ég hafði beðið um að gera hér grein fyrir atkvæði mínu þar sem ég sit nú í allsherjar- og menntamálanefnd þar sem þetta mál hefur verið til umfjöllunar.

Tilgangur frumvarpsins er stefnuyfirlýsing ríkisstjórnarinnar. Það er ekkert annað í rauninni þar á bak við en áhugi hæstv. forsætisráðherra á að taka þetta mál og þennan málaflokk yfir til sín. Hér er fyrst og fremst verið að flækja stjórnsýslustigið gegn sveitarfélögunum sem hafa ítrekað og bæði Reykjavíkurborg og Skipulagsstofnun hafa í tvígang komið með mjög rökfastar athugasemdir gegn því að málið sé sett fram með þessum hætti. Þetta er algjör óþarfi. Ef þarf að skerpa á einhverju um verndun byggða þá gerum við það í núgildandi lögum en aukum ekki lagaflækjur. Okkur ber frekar að fækka lagabálkunum en að fjölga þeim.