144. löggjafarþing — 140. fundur,  30. júní 2015.

ríkisfjármálaáætlun fyrir árin 2016--2019.

688. mál
[18:05]
Horfa

Oddný G. Harðardóttir (Sf) (um atkvæðagreiðslu):

Herra forseti. Í áætluninni er ekki reiknað með nýgerðum kjarasamningum, skattbreytingum að öllu leyti eða losun hafta, en þau atriði munu hafa umtalsverð áhrif á ríkisfjármálin á næstu árum. Minni hlutinn hefur lagt það til í fjárlaganefndinni að þessi ríkisfjármálaáætlun verði tekin til baka, unnin betur og komi svo betur unnin í haust, enda er ekki ljóst hvaða forsendum ríkisfjármálaáætlunarinnar hæstv. ríkisstjórn er bundin. Meiri hluti fjárlaganefndar leggur hins vegar til að áætlunin verði samþykkt óbreytt og þar með þær forsendur að ef kjarasamningar við ríkisstarfsmenn gefa meira en 2% kaupmáttaraukningu verði skorið niður í ríkisrekstri á móti þeim kostnaði, og þeir sem þurfa að reiða sig á bætur almannatrygginga fái aðeins 1% kaupmáttaraukningu.

Við í Samfylkingunni greiðum atkvæði gegn þessari stefnu hægri stjórnarinnar.