144. löggjafarþing — 140. fundur,  30. júní 2015.

ríkisfjármálaáætlun fyrir árin 2016--2019.

688. mál
[18:08]
Horfa

Katrín Júlíusdóttir (Sf) (um atkvæðagreiðslu):

Virðulegi forseti. Ég hélt að verið væri að grínast í mér þegar mér var sagt að menn pressuðu mjög á að ljúka þessu máli, vegna þess að ef málið er ekki hreinlega nú þegar fallið um sjálft sig vegna breytinga sem orðið hafa þá eru ríkisstjórnin og stjórnarmeirihlutinn að boða að farið verði í umtalsverðan niðurskurð í velferðarkerfinu. Það er það sem verið er að boða með samþykkt þessarar ríkisfjármálaáætlunar. Að öðrum kosti er þetta marklaust plagg.

Virðulegi forseti. Í þessari ríkisfjármálaáætlun eru líka boðaðar enn frekari hækkanir á skatti á matvæli. Ég verð þess vegna að segja að það undrar mig hversu stíft menn pressa á það að koma þessu í gegn, nema þetta standi allt saman til.

Við í Samfylkingunni segjum nei við þessu vegna þess að við viljum ekki sjá frekari hækkun á skatti á matvæli, okkur er annt um velferðarkerfið og við höfum engan áhuga á því að taka þátt í því (Forseti hringir.) að sjá það laskast enn frekar.