144. löggjafarþing — 140. fundur,  30. júní 2015.

ríkisfjármálaáætlun fyrir árin 2016--2019.

688. mál
[18:09]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S) (um atkvæðagreiðslu):

Herra forseti. Ég stíg hér upp til þess að lýsa því yfir að fyrir mitt leyti skiptir máli að þingið afgreiði ríkisfjármálaáætlunina sem kemur núna fram í sérstöku þingskjali að vori til í fyrsta sinn. Ég vil þakka nefndinni fyrir að hafa lokið meðferð málsins. Mínar vonir stóðu til þess að við næðum að taka alvöruumræðu um langtímahorfur í ríkisfjármálum, um það hvernig menn vildu sjá skuldahlutföll ríkisins þróast, hvernig menn vildu sjá útgjaldahorfurnar næstu árin, hvernig menn litu á tekjuhlið ríkisins fram í tímann litið en mundu ekki detta í það að lýsa því yfir að nú hefði eitthvað gerst á örfáum vikum sem breytti litlu tölunum í ríkisfjármálunum horft inn í næsta ár. Því miður höfum við farið dálítið í það far með þetta mál.

Auðvitað er það svo að horfur eru sífellt að breytast og auðvitað er það svo að áætlun eins og þessi verður nánast úrelt á örfáum vikum eftir að hún er lögð fram í þinginu. En við verðum að geta lifað með því og komist til botns í umræðu (Forseti hringir.) um stóru málin. Þessi ríkisfjármálaáætlun er lögð fram til að ræða stóru, breiðu línurnar. (Forseti hringir.) Fjárlög hvers árs verða síðan nánari útfærsla á þeirri hugmyndafræði og þannig þurfum við að venjast umræðu um þessi mál inn í framtíðina.