144. löggjafarþing — 140. fundur,  30. júní 2015.

Menntamálastofnun.

456. mál
[18:26]
Horfa

Bjarkey Gunnarsdóttir (Vg) (um atkvæðagreiðslu):

Herra forseti. Ég mælti fyrir áliti minni hlutans þar sem við, þ.e. ég, hv. þm. Guðbjartur Hannesson og hv. þm. Helgi Hrafn Gunnarsson, gerðum grein fyrir athugasemdum okkar varðandi þetta frumvarp og þessa stofnun. Það eru nokkrir þættir sem við tiltókum þar en ferlið er allt hið skringilegasta. Eins og við þekkjum úr umræðunni þá er stofnunin nánast orðin til án þess að lögin hafi gengið í gegn.

Það er rétt að málið hefur tekið ákveðnum breytingum til hins betra en við í Vinstri grænum sjáum okkur ekki fært að greiða þessu atkvæði í ljósi þess að það eru nokkur atriði sem okkur þykir þurfa að gera betur og vanda betur til að hægt sé að samþykkja frumvarpið.