144. löggjafarþing — 140. fundur,  30. júní 2015.

áætlun um meðferð og ráðstöfun aflamagns sem dregið er frá heildarafla.

775. mál
[18:51]
Horfa

Páll Jóhann Pálsson (F):

Virðulegi forseti. Ég ætla ekki að lengja þessa umræðu mikið. Ég vil aðeins ítreka það sem hefur komið fram í nefndarálitum og eiginlega í báðum nefndarálitum, hjá minni og meiri hluta. Í lögunum er mælt fyrir um að ráðherra leggi fram þingsályktunartillögu á sex ára fresti, en við leggjum til að hún verði endurskoðuð að ári á þeim forsendum að betri gögn verði komin þá. Í úttekt Vífils Karlssonar, „Mat á framkvæmd aflamarks Byggðastofnunar“, kemur í ljós að sú útfærsla aflamarks Byggðastofnunar virðist gefa betri raun til þess að efla búsetu en hinn venjulegi byggðakvóti þar sem almennur byggðakvóti hefur ekki haft þau áhrif á aukna byggðafestu sem ætlast var til. En stutt reynsla er komin á þetta form þannig að nefndin telur æskilegt að fá aðeins nánari reynslu á þessa útfærslu. Þess vegna eru ekki lagðar til miklar breytingar í ár á milli þessara potta. En aðeins er áherslan samt í þá veru að aukið er mest í aflamark Byggðastofnunar þar sem í rauninni er verið að úthluta kvóta á vinnslur á viðkomandi stöðum.

Þá verði einnig greindar leiðir til þess að línuívilnun færist yfir í einhverjum mæli á báta með beitningarvélar án þess að það hafi verulega neikvæð áhrif á byggðir þar sem úrræðið skiptir hvað mestu. Með aukinni byggðatengingu á línuívilnun eru menn svona að ætla það að línuívilnunin muni gagnast betur þannig. Í dag má segja að þessi útfærsla á línuívilnun hefti í rauninni framþróun í smærri byggðarlögum, þeim byggðarlögum sem við ættum kannski að leggja áherslu á að styrkja, það er spurning hvort það sé af hinu góða.

Það má líka benda á að kannski er ekki mjög viskulegt, eins og reynslan er á línuívilnun í dag, að beitt sé hér á suðvesturhorninu og línan keyrð norður á Siglufjörð eða austur á firði. Jafnvel eru dæmi um að beitningarvélar séu teknar úr bátum á suðvesturhorninu áður en þeir fara norður eða austur. Svo er verið að keyra línuna fram og til baka á hverjum einasta degi.

Eftir árið er þess vænst að gögn liggi fyrir hvað af þessum pottum gagnast best fyrir þessar byggðir og þá verði hægt að koma með þriggja ára áætlun og jafnvel til sex ára.

Einnig vil ég fagna því að horfið var frá því að skerða rækju- og skelbætur. Það var ósanngjörn leið, ég get alveg tekið undir það eins og kom fram í umsögnum, þar sem þeir aðilar sem hafa fengið þær bætur höfðu látið þorskveiðiheimildir á móti þeim skelkvóta sem þeir fengu og var svo í rauninni færður niður í núll.

En ég fagna þessu og í rauninni er tiltölulega lítill ágreiningur um þessi mál í nefndinni. Ég hef þá trú að eftir árið verði enn meiri samhljómur þegar niðurstöður frá þessum góðu aðilum liggja fyrir.