144. löggjafarþing — 140. fundur,  30. júní 2015.

áætlun um vernd og orkunýtingu landsvæða.

244. mál
[22:30]
Horfa

Frsm. meiri hluta atvinnuvn. (Jón Gunnarsson) (S):

Virðulegur forseti. Þetta mál fór í mikla rúllettu hér í þingsal sælla minninga á vordögum þar sem umræðan var að mínu mati í senn ómálefnaleg og á einhverju því lægsta plani sem maður hefur orðið vitni að í umræðu um mál hér á þingi, alla vega síðan ég kom hér inn fyrir átta árum. Breytingartillaga meiri hluta atvinnuveganefndar var sú að fimm virkjunarkostir yrðu færðir í nýtingarflokk. Það má segja, eins og ég kom inn á í ræðu minni þá, að þrír þeirra ættu að vera algjörlega óumdeildir, tveir umdeildari og þá sérstaklega virkjunarkostur við Hagavatn. Það kom ég sérstaklega inn á, þó að vissulega væru færð fyrir því málefnaleg rök hvers vegna meiri hlutinn kaus að mæta ríkum skoðunum og áhuga heimamanna á að bæta lífsskilyrði sín með þeim virkjunarkosti.

Nefndin fékk á sinn fund gríðarlega mikinn fjölda gesta. Þar kom meðal annars fram frá okkar bestu sérfræðingum á þessu sviði að hér væri um að ræða einhverja hagkvæmustu virkjunarkosti veraldar. Það eru ekki mín orð, heldur eru það orð sem komu fram hjá umsagnaraðilum sem við höfum valið sem okkar bestu sérfræðinga á þessu sviði. Þá er bæði átt við í umhverfislegu og efnahagslegu tilliti.

Hagavatn var umdeilt, sérstaklega vegna þess að sá virkjunarkostur hafði aldrei farið í nýtingarflokk. Skrokkalda var aftur á móti miklu minna umdeild. Þar er um að ræða virkjunarkost sem er vissulega í jaðri hálendisins en hefur nánast engin umhverfisáhrif. Þar er verið að nýta þegar manngerð lón og stöðvarhúsið sjálft verður inni í fjalli, inni í göngum, þannig að það sést ekkert nema lítið inntaksmannvirki við annað lónið. Þær upplýsingar sem fram komu hjá verkefnisstjórninni við afgreiðslu þessa máls voru rangar þegar talað var um að línulagnir væru órannsakaðar, vegna þess að þær upplýsingar lágu fyrir að línan frá þessari virkjun verður sett í jörð.

Það skýrðist vel í þeirri nefndarvinnu hversu haldlítil rök þáverandi ráðherra voru þegar hún tók ákvörðun um það á síðasta kjörtímabili að færa sex virkjunarkosti úr nýtingarflokki í biðflokk. Þau laxarök sem helst hafa verið nefnd í samhengi við virkjunarkost í neðri hluta Þjórsár standast auðvitað enga skoðun. Um það eru allir sérfræðingar sammála sem fjallað hafa um það og það hefur heyrst frá þeim sérfræðingum sem við eigum hér á þingi, fyrir utan það að mjög margir sem komu að því að móta starf um rammaáætlun og þá hugmyndafræði telja að skoðun á þessum þáttum eigi alls ekki heima í rammaáætlun vegna þess að ef við ætlum að beita þessum leiðum við vinnu samkvæmt rammaáætlun mun okkur ganga mjög seint að fara í þá ítarlegu vinnu sem það mundi krefjast við alla virkjunarkosti í landinu.

Þetta á til dæmis við um það sem nefnt hefur verið í umræðunni þegar sagt er að kanna verði samfélagsleg áhrif. Ég vitna þá til orða Svanfríðar Jónasdóttur, sem var formaður verkefnisstjórnar sem starfaði hvað lengst og skilaði mjög góðu starfi, þegar hún sagði að það ætti eingöngu að skoða það gróflega í rammaáætlun hvort samfélagslegu áhrifin væru mikil eða lítil en ekki að fara nánar í það, það væri vinna sem ætti heima á síðari stigum.

Sem málamiðlun í þessu máli ákvað meiri hlutinn að draga til baka tillögu sína um Hagavatn og Skrokköldu og eftir stóðu þá þrír kostir í neðri hluta Þjórsár með rökum sem standast enga skoðun, þ.e. rökunum um laxinn. Það hafði engin áhrif, það var ekki til umræðu hjá minni hlutanum á þingi að semja neitt um málið, að ræða það nokkuð frekar og hélt hann fram rökum sem ekkert hald var í. Áfram var haldið að tala um lagaleg rök, að verið væri að fara á svig við lög um rammaáætlun.

Veiðimálastofnun hefur oft komið á fund atvinnuveganefndar til að fjalla um þessi mál. Á neðri hluta Þjórsár hafa verið gerðar rannsóknir síðan 2001, skrifaðar hafa verið 27 skýrslur, samtals um 1.100 blaðsíður. Þar kemur meðal annars fram að Þjórsá er ekki náttúrulegt vatnsafl. Fyrst var virkjað í Þjórsá 1961og afleiðingar þess voru jafnara rennsli, líf fór að aukast í ánni og laxastofninn fór að vaxa. Orðið hefur tvöföldun á búsvæði laxa. Þær mótvægisaðgerðir sem Veiðimálastofnun hefur unnið að ásamt öðrum aðilum varðandi virkjanir í neðri hluta Þjórsár snúa fyrst og fremst að seiðafleytum. Fram kom í þeirra málflutningi að reynslan af þessum seiðafleytum er mjög góð og vitnuðu þeir sérstaklega til Columbia-árinnar í Bandaríkjunum og reyndar víðar. Þar eru á ferðinni einstaklingar sem hafa þekkingu á heimsmælikvarða í þessum efnum. Gerðar hafa verið prófanir með líkani á seiðafleytum af okkar færustu sérfræðingum, til dæmis fyrir Urriðafoss sem talinn er vera mjög líkur Hvammsvirkjun að þessu leyti, og þær hafa komið mjög vel út.

Alþjóðlegir umsagnaraðilar hafa gefið heilbrigðisvottorð á vinnu Veiðimálastofnunar í þessum efnum.

Þessir sérfræðingar kölluðu það stjórnsýslulegt slys að setja þessar virkjanir á byrjunarreit og hafa aldrei séð gögn sem styðja það að setja þessa virkjunarkosti í biðflokk. Um það höfum við tekist á á Alþingi í einhverri ómálefnalegustu umræðu sem ég hef orðið vitni að. Umsögn umhverfisráðuneytisins er eina lögfræðiálitið sem lagt hefur verið fram og minni hlutinn notaði það mjög í málflutningi sínum og notar jafnvel enn, en þar segir einmitt að engar athugasemdir séu gerðar við það þó að Alþingi komi með breytingartillögur varðandi neðri hluta Þjórsár. Þeir gera vissulega athugasemdir við Skrokköldu og Hagavatn.

Það sama kom fram hjá formanni verkefnisstjórnar, hann gerði engar athugasemdir við það og fannst það eðlileg málsmeðferð. Hann tók einnig undir það á fundi nefndarinnar að gagnasöfnun væri komin út fyrir eðlileg mörk varðandi neðri hluta Þjórsár, þ.e. gagnvart því sem fjalla á um í rammaáætlun.

Landsvirkjun skilaði núverandi verkefnisstjórn alveg sérstökum gögnum varðandi laxfiska í Þjórsá. Verkefnisstjórnin kallaði Landsvirkjun ekki á sinn fund til að fara yfir þau gögn áður en hún skilaði niðurstöðu sinni. Hún tók sína ákvörðun án þess að fara nokkuð yfir þau rök og þá ítarlegu skýrslu sem fyrir lá áður en hún skilaði af sér, tók bara sína ákvörðun, hversu málefnalegt sem það er.

Það er í raun mikill ábyrgðarhluti hjá þinginu að nálgast umræðu með þeim hætti sem gert hefur verið í þessu máli þar sem hentistefnusjónarmiðum og röngum fullyrðingum er stöðugt haldið fram. Viljandi? Alveg klárlega vegna þess að þekking og vitund manna á málefninu er meiri en það.

Þingmenn hafa tjáð sig um þetta mál af miklum hita, líka þingmenn sem ekki tóku þátt í umfjöllun um málið á vegum nefndarinnar sem fékk til sín um 70 gesti, fjallaði mjög ítarlega frá öllum hliðum um málið. Fulltrúar Pírata hafa til dæmis haft sig mikið í frammi í umræðu í þinginu en fulltrúi þeirra sótti ekki einn einasta fund í nefndinni til að fjalla um þetta mál. Þau hlustuðu ekki á sjónarmið en dæmdu út frá einhverju öðru. Ég hef líka heyrt það sjónarmið hjá þingmönnum sem hafa sagt við mig: Ég er ekki á móti virkjunum. En einhverjir hafa látið draga sig að mínu mati út í fúafen, langt frá sannfæringu sinni, í þágu ímyndaðrar samstöðu sem var svo mikilvæg þessum flokkum í þessu máli. Það eru auðvitað til alþingismenn sem telja að búið sé að virkja of mikið í landinu. Það er sjónarmið út af fyrir sig og ég virði það alveg að menn geti haft mismunandi skoðanir í þeim efnum, en ég fullyrði líka að það sé mikill minni hluti hér á þingi. En sjónarmið þeirra hafa hins vegar ráðið ferð í þessari umræðu.

Tvískinnungshátturinn hefur verið alls ráðandi. Þá þurfum við ekki annað en að horfa til annarra mála sem við erum að afgreiða hér með sambærilegum hætti sem eru af sama meiði, getum við sagt. Berum saman umræðuna um Bakka og umræðuna um aukna raforkuframleiðslu í landinu. Þetta sama fólk og lagst hefur algjörlega gegn því að þessi mál fái framgang á þingi og haft sitt fram, gefur grænt ljós á uppbyggingu stóriðju við Bakka. Þar er engin gagnrýni höfð frammi, en sú stóriðja eða orkufrekur iðnaður byggir auðvitað á raforkuframleiðslu. Þetta sama fólk heldur því oft fram í þessari umræðu að við séum að gefa raforku okkar, að við munum ekkert hafa út úr þessu. Ég þekki þau rök að við seljum orkuna allt of ódýrt. Það á vonandi ekki við á Bakka, ég held að við fáum alveg sæmilegt raforkuverð. En hver er þá munurinn á því að gefa land eða styðja svo mikið við framkvæmd orkufreks iðnaðar að óvíst er að það skili þeim hagnaði sem við reiknum með? En það er allt í lagi í huga þessa fólks, það er enginn greinarmunur gerður á því. Framlögin, opinn stóriðjutékki eins og við höfum kallað það, fara hér í gegn upp á 1.400 millj. kr. Hvað verður þá um alla umræðuna um að við eigum að setja þetta í þjóðaratkvæði? Eigum við ekki að láta greiða atkvæði um þetta? Þingmenn Pírata sögðu við mig í umræðunni um makrílinn að það gengi ekki upp að taka makrílfrumvarpið í gegn á svona skömmum tíma, það væri alveg ómögulegt, þjóðin yrði að hafa tækifæri til að koma að þjóðaratkvæðagreiðslu, að koma að skoðanakönnun þar sem hún gæti sagt sitt álit á málinu. En hvað þá með Bakka sem er tekinn svona fljótt í gegn án nokkurrar umræðu? (KaJúl: Ertu á móti Bakka?) Eigum við að láta þjóðina greiða atkvæði um það? Þá kallar hér varaformaður Samfylkingarinnar fram með spunaspurningu um hvort ég sé á móti Bakka. Hún veit betur. Ég hef stutt Bakka, (Gripið fram í.) en ég er bara að tala um tvískinnungsháttinn í hv. þm. Katrínu Júlíusdóttur og fleirum þegar ég segi hvernig menn nálgast þessi mál. Það er það sem er ógnvekjandi. Menn þurfa að hafa einhver prinsipp í pólitík. (Gripið fram í.)

Afleiðingar gerða síðustu ríkisstjórnar blasa við okkur vegna þess að í niðurstöðu verkefnisstjórnar um rammaáætlun 2 var reiknað með því að virkjanir í neðri hluta Þjórsár yrðu gangsettar á árunum 2015– 2017. Hvað kostar það samfélagið að þessar virkjanir í neðri hluta Þjórsár skuli ekki hafa verið gangsettar núna í ár og á næstu tveimur árum? Hvað kostar það samfélagið? Öll sú uppbygging sem því hefði fylgt hefði verið farin af stað á þeim tíma þar sem virkilega var þörf fyrir innspýtingu, sérstaklega á þessum vettvangi, í íslenskt samfélag. Menn geta reiknað hversu margra milljarða tap það er að hafa hent þessum kostum út án nokkurs skynsamlegs rökstuðnings.

Nú erum við að endurtaka leikinn í boði þessara sömu flokka, við erum að endurtaka leikinn um að tefja enn frekar mögulegar framkvæmdir í kringum þessi verkefni. Tækifæri Íslands eru mikil á þessum vettvangi. Það er nóg að vitna til dæmis til ræðu Ólafs Ragnars Grímssonar forseta á ársfundi Landsvirkjunar þar sem hann fór yfir upplifun sína á alþjóðavettvangi gagnvart tækifærum Íslands varðandi endurnýjanlega orkuöflun, eða Görans Perssons, sem var hér á ársfundi Samtaka atvinnulífsins og fór yfir þetta sama mál með sama hætti. Eins fyrrverandi orkumálaráðherra Breta sem var hér á opnum fundi um daginn og sagði okkur það sama og Göran Persson, að það væri ekkert land í heiminum sem hefði eins mörg tækifæri og Ísland til að stuðla að raunverulegri framleiðsluuppbyggingu á grundvelli endurnýjanlegra orkugjafa.

Við þekkjum öll umræðuna um það hvernig Landsvirkjun á að hafa gefið orkuna, að enginn arður sé. Þetta er allt saman gert til að blekkja almenning þegar fyrir liggur að það er bullandi arðsemi af þessum verkefnum, ekki bara fyrir raforkuframleiðsluna og þau fyrirtæki sem í því standa, heldur samfélagið allt. Þetta er sennilega stærsta tækifæri landsbyggðarinnar og okkar sem viljum gera alvöruátak í að efla landsbyggðina, hinar dreifðu byggðir. Það er ekkert verkfæri eins augljóst í þeim efnum og að skapa fjölbreyttan iðnað úti um hinar dreifðu byggðir.

Ábyrgðin er ykkar í þessu máli sem vinnið að því að tefja framgang slíkra mikilvægra mála. Við munum ekki leggja árar í bát í þeim efnum, seinni hálfleikur er að byrja og ég á alveg von á því að hann geri það með stæl, en þá vonast ég eftir því að við getum átt málefnalega umræðu um þessa hluti þar sem öfgaöfl fá ekki að ráða för.