144. löggjafarþing — 140. fundur,  30. júní 2015.

áætlun um vernd og orkunýtingu landsvæða.

244. mál
[22:45]
Horfa

Róbert Marshall (Bf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Þegar ég hlustaði á ræðu hv. þm. Jóns Gunnarssonar í þessum efnum þóttist ég kannast við auglýsingu frá Agli Skallagrímssyni sem sýnd er um þessar mundir og auglýsir gosdrykkinn Grape, sem mun vera náttúrulega biturt. Meiri hluti atvinnuveganefndar hefur fallist á að draga til baka mjög umdeildar breytingartillögur sem margir héldu fram í umræðunni um málið að væru í raun og veru ekki breytingartillögur heldur viðbótartillögur samstofna því máli sem til umfjöllunar er. Mér finnst hv. þingmaður gera því skóna í málflutningi sínum að það sé einhvern veginn sjálfgefnari skoðun og sjálfsagðari og eðlilegri að vera virkjunarmegin þegar menn horfa á landslag frekar en vera verndunarmegin, eins og það sé bara eitthvert náttúrulögmál að menn skuli virkja þegar hægt er að gera það frekar en nýta.

Mig langar til þess að spyrja hv. þingmann um atriði sem skiptir mjög miklu máli, og ég lít á það sem málefnalega umræðu: Er ósnortið landslag í huga hv. þingmanns einskis virði? Eða var það ekki svo að á síðasta ári sköpuðust hér tekjur upp á 302 milljarða frá erlendum ferðamönnum og að 80% þessara erlendu ferðamanna komu hingað til Íslands til þess að upplifa ósnortna náttúru?