144. löggjafarþing — 140. fundur,  30. júní 2015.

áætlun um vernd og orkunýtingu landsvæða.

244. mál
[22:47]
Horfa

Frsm. meiri hluta atvinnuvn. (Jón Gunnarsson) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Já, það má vissulega greina náttúrulega biturð í mínum málflutningi. Ég er allbitur fyrir hönd þjóðarinnar um það hvernig farið hefur verið með þessi mál. Er það eitthvert náttúrulögmál að vera virkjunarmegin þegar maður stendur og horfir á íslenska náttúru og hugsar það allt út frá þeim efnum? Ég geri það ekki. En það er dæmigert fyrir umræðuna að reyna að útmála þetta með þeim hætti. Það er alveg rétt, fjöldi ferðamanna kemur til landsins til þess að sjá ósnortna náttúru, um 80%, en sennilega um 30% af ferðamönnum komu til þess að skoða virkjanirnar okkar með endurnýjanlegum virkjunarkostum á síðasta ári, 30%, og þó er ekkert sérstaklega gert út á það. Þeir sækja þangað sjálfir. Þar af komu á annað hundrað þúsund gesta til þess að skoða Hellisheiðarvirkjun, 60 þúsund manns skoðuðu Kröfluvirkjun. Þetta vekur nefnilega athygli. Ég held að það geti bara verið mjög gott að gera út á þetta sérstaklega, vegna þess að þetta vekur eftirtekt, og vitna ég þá aftur til orða forsetans á þeim fundi sem ég nefndi áðan.

Virkjanir í neðri hluta Þjórsár eru ekki í ósnortnu landslagi. Þær eru ekki í ósnortinni á, hafa ekkert með það að gera. Skrokkölduvirkjun hefur ekkert með það að gera heldur, bara akkúrat ekkert. Ég nálgast þetta út frá því sjónarhorni. Það má vissulega segja það um Hagavatn, en auðvitað munu mjög miklar bætur á landslagi eiga sér stað ef Hagavatn verður virkjað, þó að það sé umdeilt og þurfi að skoða alveg sérstaklega hvort sú sveifla verði í því lóni sem einhverjir vilja halda fram að geti valdi uppblæstri. Þá er kannski til lítils að fara í þá vegferð, en það er einmitt atriði sem þarf að skoða betur.