144. löggjafarþing — 140. fundur,  30. júní 2015.

áætlun um vernd og orkunýtingu landsvæða.

244. mál
[22:49]
Horfa

Róbert Marshall (Bf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Mig langar í upphafi síðara andsvars míns að spyrja hv. þingmann beint út um hvort hann hafi dregið til baka með formlegum hætti breytingartillögur sínar og meiri hluta atvinnuveganefndar. Þá langar mig líka til þess að halda því fram að það sé óráðlegt að samþykkja flutning Hvammsvirkjunar í nýtingarflokk rammaáætlunar. Ég geri það á grundvelli þess að lögin um rammaáætlun gerðu ráð fyrir því að menn flokkuðu marga virkjunarkosti í röð en tækju ekki sérstakar virkjunarhugmyndir út fyrir sviga og skoðuðu þær sérstaklega, eins og hér hefur verið gert. Þá tel ég jafnframt að það sé algerlega óljóst og ekki hægt að sjá fyrir hvaða áhrif virkjunin muni hafa á laxastofn Þjórsár.

Það er auðvitað rétt hjá hv. þingmanni að Þjórsá hefur verið virkjuð býsna oft og virkjunarsaga hennar eða hugmyndir, umræður og áform um virkjanir í Þjórsá og útreikningar á vatnsafli þar spanna meira en 100 ár. En það er ekki rétt að um ósnortið svæði sé að ræða þegar kemur að neðri hluta Þjórsár og þeim virkjunarhugmyndum sem þar um ræðir. Það svæði er vissulega í byggð, hv. þingmaður, en áin er mjög náttúruleg. Landslagið sem um ræðir er dýrmætt og ekki er sjálfgefið að því sé umbreytt í miðlunarlón með tilheyrandi raski. Að því leytinu til finnast mér upplýsingar sem fyrir liggja ekki fullnægjandi.

Ég vil líka spyrja hv. þingmann: Hvaða rök mæla með því þegar fyrir liggur að verkefnisstjórn mun raða öllum þeim virkjunarkostum og virkjunarhugmyndum sem fyrir liggja í biðflokki í næstu umferð sem lýkur núna í haust og getur á næstu missirum (Forseti hringir.) legið hér fyrir þinginu?