144. löggjafarþing — 140. fundur,  30. júní 2015.

áætlun um vernd og orkunýtingu landsvæða.

244. mál
[22:54]
Horfa

Helgi Hrafn Gunnarsson (P) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég hjó eftir því í ræðu hv. þingmanns að hann sagði að píratar hefðu ekki mætt á einn einasta fund um þetta mál. Mig langar að nefna hérna nokkrar tölur í því sambandi og spyrja hv. þingmann tveggja spurninga.

Í fyrsta lagi vil ég benda á að samkvæmt fundargerðum sem ég renndi yfir hjá Alþingi þá mættu píratar á níu af 23 fundum um þetta mál ef atvinnuveganefnd og umhverfis- og samgöngunefnd eru teknar saman. Það er mæting upp á 39,13% fyrir málið sjálft, en það eru átta fastanefndir og þrír píratar að störfum hverju sinni, sem þýðir að við erum 37,5% mönnuð. Þess má geta að prósentin fyrir það hvenær við höfum mætt á fundi um þetta mál er yfir þeirri prósentu.

Mig langar í fyrsta lagi að spyrja hv. þingmann hvort hann telji það ekki vera ágætismætingu miðað við fólksfjölda á verk. Í öðru lagi langar mig að spyrja hvort það sé rétt að að minnsta kosti sex fundargerðir úr atvinnuveganefnd séu rangar þegar kemur að mætingu pírata, ýmist hv. þm. Jóns Þórs Ólafssonar eða annarra fulltrúa, svo sem mín eða varamanns hv. þm. Jóns Þórs Ólafssonar. Er hv. þingmaður reiðubúinn til þess að taka til baka eða útskýra betur orð sín um að píratar hafi ekki mætt á einn einasta fund í þessu máli?