144. löggjafarþing — 140. fundur,  30. júní 2015.

áætlun um vernd og orkunýtingu landsvæða.

244. mál
[22:57]
Horfa

Helgi Hrafn Gunnarsson (P) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það er ekki venjan af þingmönnum stjórnarandstöðu að vinna hörðum höndum í tveimur nefndum í einu. Það að við séum áheyrnarfulltrúar annan hvern dag er til þess að við höfum aðgengi að þessum nefndarfundum yfir höfuð, það ætti hv. þingmaður að vita. Hv. þm. Jón Þór Ólafsson er í þremur nefndum, þar af einni sem aðalmaður, sem er umhverfis- og samgöngunefnd.

39,13% mæting fyrir málið er það sem ég er að benda á hér, sérstaklega í því samhengi að hv. þingmaður nefndi að píratar hefðu skoðanir á málinu en mættu ekki á fundi. Þetta er orðalag sem hv. þingmaður vill hafa í hávegum. Sömuleiðis segir hv. þingmaður núna í þessu svari að píratar hafi mætt á einhvern fund. Fyrst voru það engir fundir, núna er það einn fundur. Það voru sex af 17 fundum atvinnuveganefndar um þetta mál sem hv. þm. Jón Þór Ólafsson eða annar fulltrúi Pírata mætti á. Það eru 35,3%. Við erum með 37,5% mannaðar nefndir út af því að við höfum þrjá þingmenn og átta fastanefndir. Það segir sig sjálft, virðulegi forseti, að ef þingmenn Pírata eiga að vera á nefndarfundum fjóra af fimm dögum sem þeir hafa til umráða samkvæmt venjulegri dagskrá þá hefðu þeir ekkert annað að gera en að velta sér upp úr málum þingmeirihlutans. Gott og vel. Gleymum því.

Þykir hv. þingmanni það sanngjarnt að segja fyrst að píratar hafi ekki mætt á fundi yfir höfuð og ýja síðan að því að þeir hafi mætt á einn fund þegar reyndin er sú að þeir mættu á 39,13% af fundum þar sem var fjallað um þetta mál yfir höfuð, hvort sem það var í atvinnuveganefnd eða annarri nefnd? Telur hv. þingmaður ekki að þingmenn Pírata séu fullkomlega hæfir til þess að hafa háværar skoðanir eins og aðrir þingmenn á þessu máli miðað við það vinnuframlag sem þeir leggja fram?