144. löggjafarþing — 140. fundur,  30. júní 2015.

áætlun um vernd og orkunýtingu landsvæða.

244. mál
[22:59]
Horfa

Frsm. meiri hluta atvinnuvn. (Jón Gunnarsson) (S) (andsvar):

Virðulegur forseti. Eitthvað hefur þetta snert viðkvæman streng. Ég sagði það hér áðan og baðst forláts á því að ef það væri staðan að þingmenn Pírata hefðu mætt á einhverja fundi í atvinnuveganefnd þá man ég ekki eftir því en það má vel vera. Ég er ekki að fjalla um umhverfis- og samgöngunefnd, hún fjallaði um málið með allt öðrum hætti en atvinnuveganefnd sem tók miklu ítarlegri og gagnrýnni umræðu um það þar sem allir sem óskuðu eftir og var óskað eftir að kæmu á fund nefndarinnar komu. Eins og ég sagði áðan þá komu yfir 70 gestir á fund nefndarinnar og var mjög ítarleg umræða tekin. Það sem átti sér stað í umhverfis- og samgöngunefnd er ekkert sambærilegt.

Ég fer ekkert ofan af því, virðulegur forseti, og það er auðvitað hægt að fletta því upp, að það er mjög algengt að þingmenn sitji í tveimur nefndum og sinni störfum í tveimur nefndum. Ég hef sjálfur gert það. Ég geri það ekki núna, sem formaður atvinnuveganefndar er ég bara í einni nefnd, en ég hef gert það öll hin árin sem ég hef setið á þingi. Í sex ár var ég í tveimur nefndum. Þá raða menn þessu þannig niður að þeir sinna nefndum sem funda á mánudögum og miðvikudögum og svo á þriðjudögum og fimmtudögum. Ég tel að flestir þingmenn sem hér eru inni sinni störfum í tveimur nefndum. Það er engum ofviða að gera það. Ég tel að píratar geti gert miklu betur en þeir hafa gert. Þeir verða bara að kannast við þá gagnrýni. Þeir vilja hafa allt uppi á borðum og opið. Þessi gagnrýni hefur komið fram. Þess vegna fannst mér tilhlýðilegt að nefna þetta vegna þess að ég tel að miðað við hvernig umræðuhefðin hefur verið og hvaða þungu skoðanir menn hafa haft á þessu máli þá sé mjög mikilvægt að fulltrúar flokkanna hafi haft tækifæri til þess að kynna sér mismunandi sjónarmið sem koma fram á nefndarfundum, öðruvísi geti menn ekki tekið þátt í umræðunni af svo miklum þunga sem raun ber vitni.