144. löggjafarþing — 140. fundur,  30. júní 2015.

áætlun um vernd og orkunýtingu landsvæða.

244. mál
[23:07]
Horfa

Katrín Júlíusdóttir (Sf):

Virðulegi forseti. Ég vil fyrst byrja á að fagna því að menn skuli hafa náð þeirri niðurstöðu að draga til baka þær breytingartillögur sem atvinnuveganefnd lagði fram við málið hér fyrr í vetur og hafa vægast sagt verið umdeildar, ekki bara hér á Alþingi heldur almennt í samfélaginu öllu. Mér fannst dálítið merkilegt að hlýða á ræðu hv. þm. Jóns Gunnarssonar þar sem hann talaði eins og að eini málefnalegi aðilinn í þessu máli og í umræðunum hér í þinginu væri hann sjálfur, en það er auðvitað alls ekki svo. Það hefur nú einfaldlega verið þannig að mér hefur þótt hann standa ansi einn í þessum slag hér í salnum vegna þess að ég held að aðrir þingmenn í stjórnarmeirihlutanum hafi vitað upp á sig skömmina í þessu máli. Það var auðvitað þannig að menn gengu hér allt of skarpt fram í því að verkfærið sem við höfum skapað til að reyna að búa til eða skapa að minnsta kosti sátt um aðferðafræðina við ákvarðanatöku um hvar eigi að virkja og hvar ekki, að menn hafi gengið ansi skarpt fram í því með þessum breytingartillögum að reyna að eyðileggja það verkfæri.

Hv. þm. Jón Gunnarsson talaði líka áðan í ræðu sinni með þeim hætti eins og rammaáætlunarverkfærið skipti hann engu máli, það hefði ekkert að segja þegar hann og hans samflokksmenn væru hér í meiri hluta, heldur skipti það eitt máli að þeir gætu tekið ákvarðanir á sínum forsendum hvar ætti að virkja eða hvar ætti ekki að virkja. Þannig var talað hér áðan í ræðum. Það staðfesti allt sem við höfum verið að ræða í vetur, að mönnum stendur algjörlega á sama um faglegar ákvarðanatökur. Það eru einfaldlega staðreyndir málsins. Því höfum við verið að mótmæla hér í vetur.

Síðan er það þannig, virðulegi forseti, að ef við bara horfum til baka í virkjunarsögu okkar Íslendinga — ég er ekki kategórískt á móti því að virkja, eins og spældur formaður atvinnuveganefndar var að reyna að halda hér fram áðan að við hlytum þá bara öll að vera þannig, því að annaðhvort hljótum við að vera eins og hann, bara almennt alltaf með öllu eða á móti öllu og engin grá svæði í lífinu. En auðvitað er það þannig að lífið er allt fullt af gráum svæðum. Lífið er dálítið margslungið og í gegnum tíðina höfum við hér á landi tekist mjög harkalega á um virkjunarframkvæmdir. Menn tókust á um Laxárvirkjun. Menn hafa tekist á um meira og minna alla virkjunarkosti hingað til. Verkfærið rammaáætlun er ætlað til þess að menn séu að minnsta kosti sammála um að menn hafi farið eins faglega að við ákvarðanatökuna og gerlegt var. Síðan getur vel verið að ekki séu allir sáttir við hina endanlegu niðurstöðu sem út úr því ferli kemur, en það er þó að minnsta kosti ekki efast um að okkar bestu fagmenn hafi komið að ákvarðanatökunni og átt í henni þátt. Það skiptir gríðarlega miklu máli.

Ef við horfum til baka hefur það heldur ekki verið gott fyrir orkugeirann að deilur hafi staðið með þessum hætti aftur og aftur vegna þess að orkugeirinn þarf langtímasýn. Hann þarf að geta gert áætlanir langt fram í tímann. Það gerum við ekki með því fyrirkomulagi að vera sífellt í skotgröfunum og enginn veit hvað mun gerast fyrir hornið, alveg eins og aðferðafræði hv. þm. Jóns Gunnarssonar boðar, ófyrirsjáanleiki og deilur.

Virðulegi forseti. Það verður líka þannig að þegar við erum komin með og farin að horfa heildstætt á myndina, eins og við erum að gera hér, þá gerist það að stór svæði munu fara í verndarflokk. Það er eðlilegt og það er gott að við sem státum okkur af fallegri náttúru skulum gæta að því að perlurnar okkar séu tryggðar fyrir raski og gætt sé að þeim. Hingað koma ferðamenn til að horfa á þær og okkur ber að vernda einstaka náttúru. Okkur ber skylda til þess, ekki einungis fyrir framtíðaríbúa þessa lands eða okkur sjálf, heldur líka náttúrunnar vegna. Við berum ábyrgð gagnvart henni. Þess vegna verðum við að vera með einhvers konar kerfi á því hvernig ákvarðanataka fer fram svo hún verði ekki einhver pólitísk hentistefna eða einstaklingsbundnir dyntir sem ráði för eins og hefur verið í gegnum tíðina.

Virðulegi forseti. Það er hárrétt hjá formanni atvinnuveganefndar að virkjanir geta alveg haft aðdráttarafl og við getum verið stolt af ýmsu sem gert hefur verið í þeim efnum og auðvitað erum við meðvituð um það að við þurfum að virkja til þess að hafa rafmagn og lifa því lífi sem við erum orðin vön. Við gerum miklar kröfur, íslenskt samfélag. En það þýðir ekki að menn geti bara gert þetta einhvern veginn og einhvers staðar og hvernig sem þeim hentar. Við hér á Alþingi berum ábyrgð á því að það sé vel gert og að menn gæti að því að ákvarðanatakan sé sem gagnsæjust og sé sem best. Það gerist ekki með því að atvinnuveganefnd taki sig til og setji sig í faglegar stellingar og byrji að meta hvar best sé að gera þetta og hvar ekki.

Virðulegi forseti. Ég verð líka að segja að ég fagna því að málið sé komið á þennan stað og hin upphaflega tillaga sem kom frá verkefnisstjórninni sé komin hingað til atkvæðagreiðslu. Það má um margt segja að ég geti að mörgu leyti tekið undir með hv. þm. Lilju Rafneyju Magnúsdóttur að mögulega var það ekki rétt ákvörðun hjá okkur á síðasta kjörtímabili að senda ákveðna virkjunarkosti til verkefnisstjórnarinnar með óskum um flýtimeðferð út frá því að hún væri að athuga ákveðna þætti sem voru þá laxaþátturinn varðandi neðri hluta Þjórsá. Það kann að vera. Ég hef eiginlega sannfærst um það í þessari umræðu að það hafi kannski bara frekar flækt málin vegna þess að verkfærið rammaáætlun byggir á því að menn séu með heildarmynd. En við lærum af þessu. Við lærum af því að við vorum að gera þetta í fyrsta skipti á síðasta kjörtímabili samkvæmt lögunum sem sett voru 2011. Það má um margt læra af því. Ég mundi líklega ekki gera þetta aftur með þessum hætti ef ég hefði eitthvað um það að segja. En þannig er það nú bara.

Núna vil ég biðla til þingheims að við náum að standa saman um að láta þetta verkfæri standa og virða það. Það er ekki þannig að við höfum í vetur staðið í einhverju frekjukasti upp á endann, heldur vorum við að verja faglega gagnsæja ákvarðanatöku eða ráðgjöf sem kom út úr því, sem ég held að við eigum á fleiri sviðum að reyna að nýta okkur. Svo er það þingmanna að taka við niðurstöðu þess og þeir geta síðan haft ýmsa sýn á það. En þá er alla vega ekki efast um að allar forsendur liggi fyrir fyrir okkur að taka síðan ákvörðun byggða á því, þannig að það sé nú sagt.

En ég tel að ef við ætlum fyrir alvöru að skapa einhverja sátt um verkfæri rammaáætlunar verði auðvitað að vera jafnvægi á milli allra þessara flokka og menn geta ekki bara lagt áherslu alltaf á nýtingarflokkinn, menn verða líka að tryggja fjármagn til þess að hefja friðlýsingarferli á því sem hefur farið í verndarflokkinn eins og hefur verið bent á hér. Ef við ætlum fyrir alvöru að skapa frið um þetta þá verður það að gerast. Það eru mikil vonbrigði hversu afhuga þessi ríkisstjórn hefur verið því að gera einmitt það. En það er líka vegna þess að umhverfismálin hafa verið hliðarsett hjá ríkisstjórninni í skúffu í öðru ráðuneyti þar til um síðustu áramót. Ég vona að nýr ráðherra, sem hefur þó verið hér síðan um áramótin, geri skurk í þessu og komi inn við gerð fjárlaganna í haust fjármunum til að hefja vinnu við friðlýsingu á þeim svæðum sem eru í verndarflokki. Öðruvísi skapast þessi sátt ekki.

Að lokum vil ég segja þetta: Gefum þessu verkfæri séns, hættum að horfa á fortíðina (Forseti hringir.) og takast á um það með hvaða hætti við lögðum af stað í þennan leiðangur. Það voru örugglega (Forseti hringir.) einhver mistök gerð. Horfum fram á veg. Fylgjum (Forseti hringir.) lögunum og reynum að vera heil í því að skapa sátt um þetta.