144. löggjafarþing — 140. fundur,  30. júní 2015.

áætlun um vernd og orkunýtingu landsvæða.

244. mál
[23:17]
Horfa

Steingrímur J. Sigfússon (Vg):

Herra forseti. Ég skil það svo að það hafi verið staðfest hér að nú sé horfin úr heimi breytingartillaga meiri hluta atvinnuveganefndar um að bæta inn í upphaflega tillögu virkjunarkostum og er það vel. Það er í raun gríðarlegur sigur í umhverfisverndarbaráttunni og kannski á þetta eftir að þykja merkilegra mál og merkilegri vetur en menn átta sig á í fljótu bragði. Sú orrusta hefur í raun staðið allt frá því að málið kom inn og því var óvart og óvænt vísað í atvinnuveganefnd í staðinn fyrir umhverfisnefnd. Það er sigur fyrir umhverfisverndarbaráttuna, fyrir fagleg vinnubrögð, fyrir vandaða stjórnsýslu, fyrir lög og fyrir virðingu Alþingis fyrir sjálfu sér og störfum sínum að þessi áform meiri hluta atvinnuveganefndar undir forustu hv. þm. Jóns Gunnarssonar hafi verið brotin á bak aftur. Málsmeðferðin öll verður okkur vonandi lexía. Vonandi fær rammaáætlun héðan í frá eða í bili að minnsta kosti að vera í friði og verkefnisstjórn fái nú næði til þess að vinna vönduð störf og skila síðan í fyllingu tímans heildstæðum og nýjum tillögum að flokkun virkjunarkosta í verndarflokk, nýtingarflokk og þá eftir atvikum áframhaldandi biðflokk.

Ég hef verið að glugga mér til upprifjunar bókina Draumalandið og uppgötvaði að það var alveg ágætt að hafa hana á borðinu og líta í hana af og til, m.a. þegar umræður brustu á um þessi mál. Það er þörf upprifjun. Ef hún kennir okkur eitthvað eða ef við viljum einhverja lærdóma draga af því sem þessi snjalla bók dregur fram þá er það þörfin fyrir að menn staldri stundum við og spyrji sig spurninga og ani ekki áfram í blindni á grundvelli einhverrar gamallar og jafnvel fullkomlega órökstuddrar hugmyndafræði um að eitthvað tiltekið sé sjálfgefið, eins og að virkja alltaf meira og láta eftir öllum hagsmunum þeirra sem vilja ásælast orkuna af svo mörgum ástæðum.

Landið okkar á það skilið að við stöldrum við þegar það á í hlut. Við þurfum að gæta að öðrum hagsmunum sem sumpart blasa núna öðruvísi við en þeir gerðu kannski fyrir áratugum. Óháð því öllu þá berum við ríkar skyldur í þessum efnum. Við Íslendingar erum hvorki svo aum né fátæk að neitt geti réttlætt það nú um stundir að við göngum með óhóflegum hætti á náttúrugæðin í landinu.

Það er einmitt svo þarft að rifja upp Draumalandið því að það dregur meðal annars upp eina mjög skemmtilega samlíkingu við virkjana- og stóriðjuæði undangenginna áratuga, þ.e. samlíkinguna við beiðni Bandaríkjamanna 1945 um að fá mestallt landið lánað undir herstöðvar. Þá var Ísland ekkert sérstaklega ríkt þó að við ættum örlítinn uppsafnaðan gjaldeyrisforða eftir stríðið, en lífskjörin voru önnur og landið langt frá því jafn þróað og það er í dag. Reyndar fóru þá í hönd erfiðir áratugir. Engu að síður sögðu menn nei við óskum Bandaríkjamanna um að fá hér land undir voldugar herstöðvar til 99 ára eins og Ólafur Thors, þáverandi forsætisráðherra, lýsti beiðninni sem kom fram 1945 og forsætisráðherra upplýsti um ári síðar og fjallaði meðal annars um í þjóðhátíðarræðu sinni það ár. Í beinni tilvitnun segir, með leyfi forseta:

„Í fyrra báðu Bandaríkin okkur um Hvalfjörð, Skerjafjörð og Keflavík. Þau fóru fram á langan leigumála, kannski 100 ár, vegna þess að þau ætluðu að leggja í mikinn kostnað. Þarna áttu að verða voldugar herstöðvar.“

Með öðrum orðum, veifuðu þeir framan í Íslendinga þeirri gulrót að þarna mundi skapast gríðarlegur fjöldi starfa og gjaldeyristekna og umsvif sem gætu haft verulega þýðingu fyrir hagþróun í landinu, en menn sögðu samt nei af því á þeim tíma voru menn enn trúir markmiðum lýðveldisstofnunarinnar um að Ísland skyldi vera ævarandi hlutlaust land og hafa engan gunnfána, allt frá því að því var lýst yfir í sambandslögunum.

Ég er í afstöðu til tillögunnar sem þá stendur ein eftir til afgreiðslu, um að færa Hvammsvirkjun í nýtingarflokk, sama sinnis og fram kemur í framhaldsnefndaráliti 2. minni hluta. Ég er andvígur því að ákveða endanlega flokkun Hvammsvirkjunar og til viðbótar þeim rökum sem þar eru færð fram þá er ég persónulega þannig staddur að ég get ekki hugsað mér það að fara fram með þá virkjun. Ég tel að það eigi ekki að ráðast í neina af virkjununum í neðri hluta Þjórsár, það sé nóg komið og að lífríkið þar og náttúran og umhverfið eigi að njóta vafans.