144. löggjafarþing — 140. fundur,  30. júní 2015.

aðgerðaáætlun til að efla fjarheilbrigðisþjónustu.

27. mál
[23:42]
Horfa

Frsm. velfn. (Róbert Marshall) (Bf):

Frú forseti. Ég mæli fyrir nefndaráliti með breytingartillögu frá velferðarnefnd um tillögu til þingsályktunar um aðgerðaáætlun til að efla fjarheilbrigðisþjónustu.

Nefndin hefur fjallað um þetta mál og fengið á sinn fund fjölda umsagnaraðila.

Þessi þingsályktunartillaga felur í sér að sett verði fram tímasett aðgerðaáætlun til eflingar fjarheilbrigðisþjónustu. Fjarheilbrigðisþjónusta er ýmiss konar heilbrigðisþjónusta sem veitt er með tilstilli fjarskiptatækni.

Umsagnaraðilar og gestir nefndarinnar voru almennt jákvæðir um efni tillögunnar. Fram kom að meiri notkun fjarskiptatækni í heilbrigðisþjónustu fæli í sér mikla möguleika til að auka skilvirkni og öryggi og bæta gæði þjónustunnar, m.a. með því að greiða fyrir aðgengi að sérfræðiþekkingu fagfólks í ýmsum heilbrigðisstéttum. Ætti það sérstaklega við í dreifðari byggðum en möguleikarnir í þéttbýli væru líka miklir. Fram kom að fjarheilbrigðisþjónusta væri viðbót og þróun á vinnulagi en væri ekki ætlað að draga úr hefðbundinni heilbrigðisþjónustu í dreifðari byggðum.

Því var hreyft fyrir nefndinni að rétt væri að móta almenna stefnu í málaflokknum og forgangsraða verkefnum og markmiðum áður en ráðist væri í gerð tímasettrar aðgerðaáætlunar. Þá kom fram að gagnlegt gæti verið að láta reyna á einstaka liði aðgerðaáætlunar í tilraunaverkefnum á afmörkuðum svæðum áður en ráðist væri í innleiðingu þeirra á landsvísu. Nefndin féllst á þessi sjónarmið.

Fyrir nefndinni kom fram að æskilegt væri að starfshópur með fulltrúum frá embætti landlæknis, Landspítala, Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins og Heilsugæslustöðinni Kirkjubæjarklaustri kæmi að vinnu við mótun stefnu og aðgerðaáætlunar. Í ljósi sérstakrar þýðingar fjarheilbrigðisþjónustu fyrir dreifðari byggðir telur nefndin einnig æskilegt að annar fulltrúi af landsbyggðinni skipi slíkan starfshóp.

Nefndin leggur til að tillagan verði samþykkt með eftirfarandi breytingu:

Tillögugreinin orðist svo:

Alþingi ályktar að fela heilbrigðisráðherra að skipa starfshóp sem móti stefnu og aðgerðaáætlun til eflingar fjarheilbrigðisþjónustu svo bjóða megi landsmönnum, hvar sem þeir eru í sveit settir, fjölbreytta, skilvirka og örugga heilbrigðisþjónustu. Heilsugæslustöðin Kirkjubæjarklaustri, Heilsugæsla höfuðborgarsvæðisins, landlæknir og Landspítali tilnefni einn fulltrúa hver í hópinn en einn fulltrúa skipi heilbrigðisráðherra án tilnefningar. Starfshópurinn ljúki störfum fyrir 1. mars 2016.

Hv. þm. Helgi Hrafn Gunnarsson, áheyrnarfulltrúi í nefndinni, er samþykkur áliti þessu. Hv. þingmenn Brynjar Níelsson og Guðbjartur Hannesson voru fjarverandi við afgreiðslu þessa máls. Undir þetta nefndarálit rita hv. þingmenn Sigríður Ingibjörg Ingadóttir, Ásmundur Friðriksson, Elsa Lára Arnardóttir, Páll Jóhann Pálsson, Ragnheiður Ríkharðsdóttir og Steinunn Þóra Árnadóttir auk flutningsmanns þessarar tillögu, hv. þm. Bjartar Ólafsdóttur, sem er fjarverandi, en ég mæli fyrir þessu nefndaráliti fyrir hennar hönd.