144. löggjafarþing — 140. fundur,  30. júní 2015.

veiðigjöld.

692. mál
[23:50]
Horfa

Frsm. meiri hluta atvinnuvn. (Jón Gunnarsson) (S):

Virðulegur forseti. Ég mæli hér fyrir nefndaráliti með breytingartillögu um frumvarp til laga um breytingu á lögum um veiðigjöld, nr. 74/2012 (veiðigjald 2015–2018). Þetta er nefndarálit frá meiri hluta atvinnuveganefndar.

Nefndin fékk fjölda gesta á sinn fund út af þessu máli frá hagsmunaaðilum, fyrirtækjum, Samtökum í sjávarútvegi og fiskvinnslu auk verkalýðsforustu einstakra fyrirtækja og sveitarfélaga. Einnig komu Samtök fjármálafyrirtækja og Samtök sjávarútvegssveitarfélaga.

Í fyrri hluta nefndarálitsins eru rakin lög um veiðigjöld og frumvarpið eins og það liggur fyrir. Tel ég ekki ástæðu til að endurtaka það en kem inn í nefndarálitið þar sem segir að meiri hlutinn taki undir það sem fram kemur í athugasemdum við frumvarpið að mikilvægt sé að gjaldheimta í sjávarútvegi byggist ekki eingöngu á afkomu þeirra fyrirtækja sem best gengur, því að það getur vegið að fjölbreytileika greinarinnar. Áréttar meiri hlutinn ummæli í nefndaráliti meiri hluta á síðasta löggjafarþingi: „Meiri hlutinn telur mikilvægt að álagning veiðigjalda og innheimta þeirra verði ekki til þess að skapa óstöðugleika og óvissu í rekstri sjávarútvegsfyrirtækja. Umræða um auðlindagjald og sanngjarnan hlut þjóðarinnar í afrakstri sjávarútvegsins er áralöng. Hugmyndafræðin um álagningu veiðigjalda á svokallaðan umframarð af rekstri sjávarútvegsfyrirtækja hefur verið deilumál og skapað átök um þá mikilvægu atvinnugrein sem sjávarútvegur er. Meiri hlutinn telur að hugmyndafræðilegur ágreiningur megi ekki leiða til þess að skapa óvissu í sjávarútvegi og því telur meiri hlutinn nauðsynlegt að ná frekari sátt um framtíðarfyrirkomulag þeirrar gjaldtöku sem hér um ræðir. Mikilvægt er að hafa í huga að há álagning gjalda af þessu tagi vinnur gegn því markmiði laga um stjórn fiskveiða að standa vörð um fjölbreytta útgerð og öflug byggðarlög.“

Samkvæmt nýjustu upplýsingum frá atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytinu má gera ráð fyrir að álögð veiðigjöld fiskveiði árið 2014/2015 geti numið um 8,5 milljörðum kr. Samkvæmt frumvarpi þessu er áætlað að álögð veiðigjöld á fiskveiðiárinu 2015/2016 geti numið allt að 10,9 milljörðum kr. Hækkun veiðigjalda milli ára er um 28% og leggst þungi hækkunar á botnfiskstegundir. Fram hefur komið að svo mikil hækkun, og þá sérstaklega hækkun veiðigjalds botnfiskstegunda, sé mikið áhyggjuefni. Má til dæmis nefna að yrði frumvarpið óbreytt að lögum mundi veiðigjald á þorsk hækka um 53,25% og ýsu um 47,84%. Búast má við því að verði frumvarpið óbreytt að lögum verði enn frekari samþjöppun veiðiheimilda en þegar er orðin og líklegt væri að þungi gjaldsins væri of mikill á minni útgerðir sem fyrst og fremst veiddu botnfisk. Með hliðsjón af framangreindu telur meiri hlutinn rétt að fara gaumgæfilega yfir alla þætti málsins.

Meiri hlutinn telur rétt að þegar veiðigjaldsnefnd hefur lokið útreikningum á veiðigjaldi skv. d-lið 5. gr. frumvarpsins þá kynni hún atvinnuveganefnd þá útreikninga svo fljótt sem auðið er. Ætlunin er að hafa tækifæri til að skoða hvort verulegar breytingar hafi orðið á afkomu tiltekinna tegunda.

Meiri hlutinn leggur til nokkrar breytingar á frumvarpinu sem fyrst og fremst miða að raunhæfri lækkun heildarveiðigjaldsins miðað við frumvarpið og að létt verði að nokkru á botnfisksútgerðum. Breytingunum má skipta í fimm hluta:

1. Lagt er til að í reiknigrunni veiðigjalda á botnfisk sé gert ráð fyrir 5% álagi í stað 20% af eftirfarandi: Öllum hreinum hagnaði (EBT) í söltun og herslu, og fyrir ferskfiskvinnslu og 78% af hreinum hagnaði (EBT) í frystingu (landfrystingu). Jafnframt er lagt til að í reiknigrunni veiðigjalda á uppsjávarfisk sé gert ráð fyrir 25% álagi í stað 20% af eftirfarandi: 22% hreins hagnaðar (EBT) í frystingu og öllum hreinum hagnaði (EBT) af mjöl- og lýsisvinnslu. Þessi breyting breytir hlutföllum milli botnfisks og uppsjávarfisks þannig að botnfiskur greiði lægra gjald að tiltölu.

2. Við ákvörðun veiðigjalda verði miðað við 33% af heildarreiknigrunni botnfisks og uppsjávarfisks í stað 35% af reiknigrunni þessara tegunda. Þessi breyting hefur í för með sér nokkra lækkun heildarveiðigjalda.

3. Lagt er til að 10 kr./kg viðbótargjald á makríl falli brott, bæði þar sem líkur eru á að frumvarp um stjórn veiða á Norðaustur-Atlantshafsmakríl taki nokkrum breytingum í meðferð þingsins þar sem gert er ráð fyrir að svonefnd sex ára regla falli brott og auk þess virðist óvissa á makrílmörkuðum og við veiðar hans nú ekki geta réttlætt viðbótarskattheimtu af þessu tagi.

4. Í því skyni að koma til móts við smærri útgerðir sem bera meiri þunga veiðigjalda en áður er lögð til veruleg breyting á svokölluðu frítekjumarki. Lagt er til að hver gjaldskyldur aðili eigi rétt á því að fá 20% afslátt af fyrstu 4,5 millj. kr. álagðs veiðigjalds og 15% afslátt af næstu 4,5 millj. kr. álagningarinnar. Þeir aðilar sem njóta réttar til lækkunar veiðigjalds skv. 7. mgr. d-liðar 5. gr. frumvarpsins, eiga ekki rétt á þessum afslætti, fyrr en sá réttur er uppurinn, og reiknast afsláttur af því veiðigjaldi sem lagt er á eftir þann tíma. Samkvæmt þessari tillögu getur hámarksafsláttur numið 1.575 þús. kr. og er meginmarkmið hans fyrst og fremst að rétta stöðu smárra og millistórra útgerða sem stunda botnfisksveiðar.

5. Loks er í aðlögunarskyni lagt til að staðgreiðslu veiðigjalda verði seinkað um tvo mánuði í byrjun þannig að þrátt fyrir ákvæði 6. gr. frumvarpsins skuli fyrsta greiðslutímabil veiðigjalds vegna fiskveiðiársins 2015/2016 vera frá 1. september 2015 til 31. desember 2015 og fyrsti gjalddagi 1. febrúar 2016. Er þetta fyrst og fremst lagt til svo að Fiskistofa og tollstjóri hafi rýmri tíma til undirbúnings staðgreiðslunnar.

Undir þetta álit skrifa hv. þingmenn Jón Gunnarsson, Haraldur Benediktsson, Fjóla Hrund Björnsdóttir, Þorsteinn Sæmundsson og Þórunn Egilsdóttir. Hv. þm. Ásmundur Friðriksson var fjarverandi við afgreiðslu málsins.

Meiri hlutinn leggur til að frumvarpið verði samþykkt með þeim breytingartillögum sem þar greinir um.