144. löggjafarþing — 141. fundur,  1. júlí 2015.

störf þingsins.

[10:04]
Horfa

Ásmundur Friðriksson (S):

Virðulegi forseti. Þegar fjallað er um jafnlaunastefnu er einkum átt við jöfn laun karla og kvenna. Lítil sem engin umræða hefur farið fram um jafnlaunastefnu eftir vinnu, ábyrgð og menntun. Í sjálfu sér hefur ekki farið fram umræða um hvernig sá munur eigi að vera og hvers vegna. Réttmæt krafa BHM um að menntun verði metin til launa er almenn krafa um launahækkun háskólamanna án þess að fram komi rökstuðningur, hvers vegna og hvernig. Á lögfræðingurinn að fá hærri laun en bílstjóri? Þá hefur heldur ekki verið rætt um launamun á milli háskólamenntaðra. Á lögfræðingur hjá ríkinu að hafa hærri laun en íslenskukennari í framhaldsskóla? Af hverju fá tvíburar sem eru konur og útskrifuðust úr háskólanum, önnur sem lögfræðingur en hin sem ljósmóðir, ekki sömu laun hjá ríkinu?

Lífskjararannsókn Hagstofunnar leiðir í ljós að þeir sem eingöngu hafa lokið grunnskólamenntun á Íslandi eru með hærra hlutfall af ráðstöfunartekjum háskólamenntaðra en í nokkru öðru Evrópulandi eða 87,7% árið 2012. Það ár var miðgildi ráðstöfunartekna 345 þús. kr. hjá háskólamenntuðum, 316 þús. kr. hjá fólki með starfs- og fagmenntun og 303 þús. kr. hjá fólki með grunnskólamenntun.

Virðulegi forseti. Formaður VR, Ólafía B. Rafnsdóttir, sagði í sjónvarpsviðtali að forsendur samninga VR hafi verið fækkun skattþrepa í tvö, því að þær breytingar skili umtalsverðum ávinningi fyrir félagsmenn í millitekjuhópi VR. Ég spyr því hv. þm. Katrínu Júlíusdóttur: Þingmenn Samfylkingarinnar hafa rætt um jafnlaunastefnu en jöfnuðurinn er hvergi meiri en á Íslandi. Þið viljið laun í samræmi við menntun og talið á móti skattkerfisbreytingum sem skila millitekjufólki umtalsverðum ávinningi. Hvernig sér Samfylkingin að meiri jöfnuður verði á launamarkaði? Fellst Samfylkingin á kröfur BHM um að menntun verði metin til launa? Er Samfylkingin ósammála formanni VR og á móti því að skattar séu lækkaðir til að bæta hag millitekjufólks?