144. löggjafarþing — 141. fundur,  1. júlí 2015.

störf þingsins.

[10:08]
Horfa

Eldar Ástþórsson (Bf):

Virðulegi forseti. Nú er um mánuður síðan ég tók fyrst sæti á þingi og það segja mér reyndari þingmenn að síðustu fjórar vikur gefi ekki rétta mynd af þingstörfunum almennt. Ég vona svo sannarlega að þeir hafi rétt fyrir sér því að ég verð að játa að þingstörfin komu mér heldur undarlega fyrir sjónir.

Síðast þegar ég talaði undir liðnum um störf þingsins gagnrýndi ég vinnubrögðin, tuðaði yfir tuðinu, eins og einn félagi minn orðaði það. Mig langar að koma með tillögu að úrbótum, eina litla tillögu um það hvernig við getum bætt störf þingsins, gert þau betri. Ég er nokkuð viss um að við getum náð því fram ef viljinn er fyrir hendi. Þetta kallar á smáæfingu, mikla æfingu fyrir einhverja, en ég trúi því að þetta sé vel hægt og kannski ekki svo erfitt.

Ég legg til að við hættum og leggjum alfarið af þann ósið að vera með hróp og frammíköll að þingmönnum sem standa í ræðustól, (Gripið fram í: Heyr, heyr.) að í stað þess að trufla eða gera hróp að þingmönnum meðan þeir eru í pontu biðji viðkomandi um orðið og noti ræðustól þingsins til að gagnrýna eða útskýra afstöðu sína. Ég hef rætt þetta við þingmenn í mínum flokki og nú ber ég þetta hérna fram, til þingheims alls.

Hér eru þrjár góðar ástæður fyrir því af hverju þingmenn ættu að hætta hrópum og frammíköllum. Það er hægt að koma athugasemdum sínum og sjónarmiðum miklu betur á framfæri í ræðustól. Þar er sömuleiðis hægt að tala við þjóðina alla (Forseti hringir.) og þingheim, því að hróp og frammíköll nást sjaldan í útsendingu og hafa nákvæmlega ekkert upp á sig. Ég hvet okkur öll til að nota frekar pontuna og hætta frammíköllum í þingsal.