144. löggjafarþing — 141. fundur,  1. júlí 2015.

störf þingsins.

[10:16]
Horfa

Katrín Jakobsdóttir (Vg):

Herra forseti. Lesa mátti um það í fréttum nýlega að sveitarstjórn Rangárþings eystra vinni nú að nýju deiliskipulagi við Seljalandsfoss og þar sé einn af möguleikunum sem er til skoðunar gjaldtaka við fossinn. Það er staðreynd að við erum enn með þau mál í ólestri hvort það megi yfir höfuð taka gjald við náttúruperlur landsins af fólki sem þar fer um. Eftir að frumvarp hæstv. iðnaðarráðherra um náttúrupassa steytti á skeri í þinginu hefur ekkert orðið úr því að við tökum fast á því máli. Það liggur fyrir, og það kom fram í umræðum um það mál í þinginu, að almennt mátti greina vilja til þess að skoða upptöku þjónustugjalda innan ferðaþjónustu sem og að skoða möguleikann á því að horfa á ferðaþjónustu eins og hverja aðra atvinnugrein sem nýtir auðlindir landsins, þ.e. náttúruna, hina ósnortnu náttúru, fegurðina sem felst í náttúrunni, og eðlilegt sé að ferðaþjónustan greiði af því sanngjarnt gjald alveg eins og við ætlumst til þess að þeir sem nýta fiskinn í sjónum greiði af því sanngjarnt gjald.

Ekkert hefur hins vegar þokast áfram í þeim málum. Það gengur ekki, herra forseti, að við séum enn stödd í einhverju villtu vestri þar sem landeigendur, sveitarstjórnir og aðrir geta farið sínu fram með tilviljanakenndri gjaldtöku við ferðamannastaði og í því sé í raun og veru ekkert hægt að gera. Mér er til efs að þetta standist náttúruverndarlögin sem eru í gildi. Við höfum lagt fram ítrekaðar spurningar um það í þinginu og fengið vísbendingar um að svo sé ekki, en ekkert er gert og ekki er gripið til neinna ráða.

Herra forseti. Miðað við hvað þetta þing hefur nú starfað lengi, lengur en nokkurt þing á ári sem ekki eru kosningar frá 1985, finnst mér algjörlega ótrúlegt að hæstv. ríkisstjórninni hafi enn ekki tekist að ná (Forseti hringir.) utan um þau mál af neinu viti, við séum að horfa á það í haust að nákvæmlega sömu mál verði uppi á borðinu og voru hér síðasta haust. Þetta er ekki bara stöðnun, (Forseti hringir.) mér finnst við frekar fara aftur á bak en hitt.