144. löggjafarþing — 141. fundur,  1. júlí 2015.

störf þingsins.

[10:20]
Horfa

Elsa Lára Arnardóttir (F):

Hæstv. forseti. Í þessari stuttu ræðu minni ætla ég að vera á svipuðum stað og hv. þm. og félagi Þorsteinn Sæmundsson. Það er full ástæða til þess að hafa áhyggjur af þróun mála varðandi verðlagshækkanir. Það er alveg ótrúlegt að lesa fréttir af því að ákveðnar verslanir hafi hækkað vöruverð um rúm 4% á stuttum tíma og einnig les maður fréttir af því að til standi að birgjar hækki enn frekar verð á vörum sínum á næstu mánuðum. Þetta gerist þrátt fyrir, eins og hv. þm. Þorsteinn Sæmundsson benti á, að krónan hafi verið að styrkjast um 10–12% á ákveðnu tímabili. Verslanirnar hafa ekki verið að skila að fullu til neytenda svokölluðum sykurskatti og neytendur hafa ekki fundið fyrir því að sú lækkun hafi átt sér stað. Hins vegar eru verslanirnar, margar hverjar, ekki lengi að skila til neytenda ef það verður einhver hækkun á markaði.

Maður les að það eru Hagkaup og Iceland sem hafa hækkað hvað mest, það kemur fram í könnunum sem gerðar hafa verið á verðlagi undanfarið. Þarna má meðal annars velta því fyrir sér að þetta eru verslanir sem eru með opið allan sólarhringinn. Það er greinilegt á verðlaginu að það eru neytendurnir sem bera þann opnunartíma. Maður veltir því fyrir sér upp á hag neytenda hvort nauðsynlegt sé að opnunartíminn sé svona langur, því að þetta skilar sér í hærra vöruverði sem hefur áhrif á ýmsar vísitölur.

Það er full ástæða til að hafa áhyggjur af þessu vegna þeirra forsendna sem gefnar eru í ákveðnum kjarasamningum að ef kaupmáttur heldur sér ekki og eykst ekki séu ákveðnir kjarasamningar í hættu. Ég vonast til þess að þeir birgjar og þær verslanir sem hafa verið að hækka vöruverð hvað mest undanfarið endurskoði þær ákvarðanir sínar og reyni að skila lækkunum út í verðlag.