144. löggjafarþing — 141. fundur,  1. júlí 2015.

plastpokanotkun.

166. mál
[10:42]
Horfa

Oddný G. Harðardóttir (Sf):

Herra forseti. Ég vil byrja á því að lýsa yfir ánægju minni og þakklæti til hv. umhverfis- og samgöngunefndar fyrir að málið skuli vera komið hingað og að það verði tekið til afgreiðslu í dag. Þetta er mikilvægt mál.

Við notum plast mjög víða, plast er notað úti um allt. Við munum ekki hætta að nota plast en við verðum að hafa það í huga að plastið brotnar illa niður og á mörgum tugum ára, það mylst niður í litlar agnir, t.d. í hafinu. Þar fer það út í fæðukeðjuna hjá sjávardýrunum og eftir því sem dýr eru ofar í fæðukeðjunni, þeim mun áhrifameiri verða aukaverkanirnar og verri áhrifin af þessum plastögnum í hafinu. Það er virkilega ástæða til að hafa áhrif á það því að sýnt hefur verið fram á að þetta hefur áhrif á heilsufar og ekki síst hormónabúskap okkar mannanna.

Við Íslendingar byggjum ímynd okkar á hreinleika, á hreinum sjó og við seljum fiskinn okkar með einmitt þá ímynd í huga. Við eigum auðvitað að ganga fram með góðu fordæmi og gerum það núna með því að samþykkja þessa þingsályktunartillögu. Við erum á undan Evrópusambandinu sem mun koma með tilskipun, og það á auðvitað að vera þannig.

Við tökum eftir því þegar við förum í búðir að við notum mikið af umbúðum þegar við tökum vörurnar með okkur heim, ekki bara plastpoka, heldur er mikið af plastumbúðum úti um allt og sumir tala um að Íslendingar séu á plastumbúðafylliríi dagsdaglega. Við getum tekið á því sjálf, hvert og eitt okkar, en ég fagna því að stjórnvöld munu núna ganga ákveðið fram til þess að vinna að þessari þingsályktunartillögu, sem hefur fengið góða meðferð í þinginu. Eins og fram kom áðan hjá framsögumanni lagði Margrét Gauja Magnúsdóttir, varaþingmaður Samfylkingarinnar, fram þingsályktunartillögu þar sem kanna átti hagkvæmni þess að draga út plastpokanotkun. Í kjölfar umræðu sem sú þingsályktunartillaga fékk, þó að hún hafi ekki fengið afgreiðslu, var ákveðið að ganga lengra og ég og fleiri samfylkingarmenn og hv. þingmenn úr öllum stjórnmálaflokkum ákváðum að flytja þessa þingsályktunartillögu, sem ég fagna enn og aftur að sé komin hér til afgreiðslu.