144. löggjafarþing — 141. fundur,  1. júlí 2015.

athugun á hagkvæmni lestarsamgangna.

101. mál
[10:55]
Horfa

Frsm. minni hluta um.- og samgn. (Birgir Ármannsson) (S):

Hæstv. forseti. Eins og fram kom í máli hv. þm. Svandísar Svavarsdóttur er hér um að ræða þingmannamál sem flutt er af þingmönnum úr fjórum stjórnmálaflokkum. Við umfjöllun í nefndinni er rétt að geta þess að fram komu skiptar skoðanir um ýmsa þætti þessa máls, en hins vegar er þetta mál unnið í samkomulagi að því leyti að samið var um að það væri meðal þeirra mála sem hlyti framgang á vettvangi þingsins á þessu vori.

Í áliti minni hluta umhverfis- og samgöngunefndar, sem ég stend að ásamt hv. þingmönnum Haraldi Einarssyni og Vilhjálmi Árnasyni, er í sjálfu sér að finna jákvæð viðhorf til þess að sveitarfélög á höfuðborgarsvæðinu hafi náð saman að móta í sameiningu framtíðarsýn í skipulagsmálum, ég vísa til þeirrar könnunar á lestarsamgöngum á höfuðborgarsvæðinu og til Keflavíkur sem tillagan fjallar um. Við teljum réttast að sveitarfélögin axli ábyrgð á mótun mála á þessu stigi. Það tengist vangaveltum okkar um hvernig best sé að haga verkaskiptingu milli ríkis og sveitarfélaga að þessu leyti, en við áréttum að verkefnið er þess eðlis að það er gríðarstórt, það þarf að skoða vel, enda er ljóst að um gríðarlegan kostnað yrði að ræða væri ráðist í þær framkvæmdir sem þarna er verið að vísa til.

Í ljósi aðstæðna og umfjöllunar um málið tökum við fram sem undir þetta nefndarálit ritum að við teljum ekki tilefni til að taka efnislega afstöðu til málsins og munum sitja hjá í þinginu við afgreiðslu þess.