144. löggjafarþing — 141. fundur,  1. júlí 2015.

athugun á hagkvæmni lestarsamgangna.

101. mál
[11:04]
Horfa

Helgi Hrafn Gunnarsson (P) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég hef tekið eftir því að í samgöngumálum virðist alltaf vera svolítill rígur milli manna, meira eða minna eftir búsetu, um það hvar peningar eiga að enda í þágu samgangna. Nú þykir sumum það sérstakt að ég sem þingmaður Reykjavíkur er mjög hlynntur mjög víðtækum aðgerðum í þágu samgangna, þar á meðal gangagerðum og því um líku úti á landi, en ég heyri alltaf þá orðræðu að við í Reykjavík ættum ekki að vera að borga fyrir einhver göng úti á landi. Mér finnst það satt best að segja fráleitur málflutningur, en ég heyri sama tóninn í ræðu hv. þingmanns þótt ég gefi honum það alveg að þetta var mjög málefnaleg ræða sem hann flutti og hann talar um mjög háar upphæðir, vissulega eru þetta háar upphæðir. En er þetta ekki nokkuð sem við eigum öll að sameinast um sem Íslendingar að hafa allt í sem bestu lagi fyrir okkur öll óháð búsetu? (KaJúl: Heyr, heyr.)