144. löggjafarþing — 141. fundur,  1. júlí 2015.

athugun á hagkvæmni lestarsamgangna.

101. mál
[11:07]
Horfa

Helgi Hrafn Gunnarsson (P) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það er mikilvægt að fá það á hreint hvernig hægt er að nýta samgöngur sem best fyrir alla landsmenn. Þá á ég ekki bara við tiltekin svæði heldur til dæmis samgöngur milli Keflavíkur og Reykjavíkur, hvernig það getur nýst fólki úti á landi, og hvernig hugsanlega nota megi Keflavíkurflugvöll til þess að dreifa ferðamönnum út á land eða stofna alþjóðaflugvöll annars staðar á landinu, svo sem á Akureyri, sem mér finnst mjög áhugaverð hugmynd. Ég mundi endilega vilja gera hagkvæmniathugun á því, ef ég á að segja alveg eins og er.

Að mínu mati eru samgöngumál að verulegu leyti mál allra landsmanna, kannski ekki strætó innan Akureyrarbæjar, enda er það innan Akureyrarbæjar. Sama máli gegnir um strætó innan höfuðborgarsvæðisins. En öll sveitarfélögin taka þátt í strætósamstarfinu á höfuðborgarsvæðinu, það eru mörg sveitarfélög, eðlilega, vegna þess að samgöngur snerta, eðli málsins samkvæmt, mörg svæði, fyrir utan einstaka sveitarfélög. En þegar kemur að þjóðaratkvæðagreiðslum vil ég taka það skýrt fram að ég er alveg til í þær að því gefnu að menn geti tekið upplýsta ákvörðun um mál hverju sinni. Ég tel Rögnunefndina vera eitt skref í þá átt en lýsi mig algjörlega hlynntan því að fólk komi að ákvörðunum sem snerta líf þess, og það er reyndar grunnstefna Pírata. Það er hluti af sjálfsákvörðunarrétti. Hv. þingmaður hefur vissulega samúð mína og skilning hvað þetta varðar þótt spurningin um skipulagsvald sé líka spurning um sjálfsákvörðunarvald hvers sveitarfélags fyrir sig. Ég geri mér alveg grein fyrir því að það er ekkert hlaupið að því, það er ekki endilega einfalt.

En ég velti fyrir mér að ef við mundum til dæmis fara í þjóðaratkvæðagreiðslu um einhver ákveðin göng úti á landi sæi ég ekki tilganginn með því að setja slíkt í þjóðaratkvæðagreiðslu fyrr en það væri komið á hreint hvernig við ætlum að hafa samgöngumálin í heild sinni á landinu. Þá fyrst þyrftum við að ná sátt um að við ætlum einfaldlega að hafa samgöngurnar í frábæru (Forseti hringir.) ástandi.