144. löggjafarþing — 141. fundur,  1. júlí 2015.

athugun á hagkvæmni lestarsamgangna.

101. mál
[11:10]
Horfa

Höskuldur Þórhallsson (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Bara þannig að það sé á hreinu; það eru fulltrúar allrar þjóðarinnar sem taka ákvörðun um uppbyggingu jarðganga hvar sem er á landinu. Allir landsmenn eiga sína fulltrúa við borðið þegar svona stórar ákvarðanir eru teknar, enda snerta þær allar þjóðarhagsmuni. Ég hef verið þeirrar skoðunar eftir að hafa heyrt í samtökum fyrirtækja í ferðaþjónustu og náttúruverndarsamtökum að það sé mjög brýnt að dreifa ferðamönnum um landið. Það sé í rauninni nauðsynlegt vegna þess að slík er samþjöppunin hér á suðvesturhorninu að menn telja að upplifun ferðamannsins gæti orðið neikvæð, þá skaðast allir. Það eru líka aðilar hér í Reykjavík sem hafa bent á þetta. Það eru mikilvægar og fallegar náttúruperlur sem hafa því miður ekki notið sömu fjölgunar ferðamanna og aðrar. Þess vegna segi ég: Í ljósi þess, væri þá ekki langbest að við mundum einbeita okkur að því að byggja upp alþjóðaflugvellina tvo fyrir utan Reykjavíkurflugvöll, á Akureyri og Egilsstöðum? Er það ekki í forgangi? Við erum að tala um náttúruverndarsamtök sem eru að hugsa um hagsmuni alls landsins. Við erum að tala um stærsta þjóðaratvinnuveginn í dag, ferðamannaiðnaðinn. Það eru slíkir hlutir sem ég bendi á.

Í mínum huga er það alveg á hreinu varðandi sjálfsákvörðunarréttinn að það er Alþingis að ákveða með almennum lögum samkvæmt 78. gr. stjórnarskrárinnar, það stendur þar, hvað heyrir undir þennan sjálfsákvörðunarrétt. Það er mjög skýrt. En þjóðarhagsmunir verða að koma þar undir. Í þessu máli er einfaldlega verið að biðja ríkið um að koma að hagkvæmniathugun á einhverju sem ég tel að þróa þyrfti betur áður en það kemst einu sinni til umræðu. Það er mín skoðun. Sveitarfélögin verða að þróa þetta mál lengra, koma með skýrari línu um hvað (Forseti hringir.) er að ræða. Þá fyrst mundi ég vilja taka það til umræðu eingöngu (Forseti hringir.) hvort ríkið eigi að koma að slíkum framkvæmdum. Ég mundi ekki samþykkja það einn, tveir og bingó (Forseti hringir.) fyrir mitt leyti.