144. löggjafarþing — 141. fundur,  1. júlí 2015.

athugun á hagkvæmni lestarsamgangna.

101. mál
[11:12]
Horfa

Katrín Júlíusdóttir (Sf):

Virðulegi forseti. Ég vil koma hingað upp stuttlega til að fagna þessu máli og fagna því að við séum að fara að samþykkja það. Málið hefur verið afgreitt úr nefnd þó að við náum því miður ekki að klára málið á þessu þingi, þ.e. samgönguáætlun eða tillaga til þingsályktunar um samgönguáætlun. Þar leggur minni hlutinn til í nefndaráliti að ríkið komi að þessu verkefni sem sveitarfélögin eru að vinna að á höfuðborgarsvæðinu með fjármunum strax, vegna þess að þetta er auðvitað leiðin sem við verðum að fara. Mér er það algjörlega óskiljanlegt hvað menn sjá athugavert við það að fara í hagkvæmniathugun á því hvort bæta megi samgöngur á höfuðborgarsvæðinu og hvort styrkja megi samgöngur líka við landshluta eins og Suðurnesin og önnur.

Mér finnst koma vel til greina og sé það algjörlega fyrir mér í framtíðinni að hugsanlega verði lestarsamgöngur til þéttbýliskjarna nálægt höfuðborgarsvæðinu, til Selfoss, Borgarness, Akraness og fleiri staða, en þá er auðvitað eðlilegt að horft sé fyrst til Keflavíkur enda milljónir manna sem fara þar um og þar á milli. Þetta hefur ekkert með Reykjavíkurflugvöll að gera. Ég skil ekki að menn séu að blanda umræðum um Reykjavíkurflugvöll hér inn í nema þá að menn hafi svo mikla þörf fyrir að ræða það og koma skoðunum sínum á framfæri um það mál að menn ákveði að grípa hvert tækifæri. Það að skoða lestarsamgöngur milli Reykjavíkur og Keflavíkur hefur ekkert með Reykjavíkurflugvöll að gera. En það hefur með það að gera að gríðarleg umferð er á milli höfuðborgarsvæðisins og þess svæðis. Þetta hefur með það að gera að bæta hugsanlega þjónustuna við erlenda ferðamenn og líka við íslenska borgara, að menn geti búið utan Reykjavíkur og höfuðborgarsvæðisins og átt tækifæri á því að starfa þar engu að síður. Þetta er eingöngu til að styrkja höfuðborgarsvæðið og nærsamfélögin sem eitt atvinnusvæði og gefa fólki aukin tækifæri á að lifa og starfa á því svæði án þess að þurfa að vera á sama blettinum.

Ég er gríðarlega ánægð með það sem verið er að gera í þessum málum hjá öllum sveitarfélögunum á höfuðborgarsvæðinu. Ég er ánægð með það sem þau kynntu hér í gær, góðar hugmyndir um það með hvaða hætti þau sjá fyrir sér höfuðborgarsvæðið þróast. Það er löngu orðið tímabært að sveitarfélögin vinni þéttar saman og horfi á höfuðborgarsvæðið sem eina skipulagslega heild. Þetta er svo sannarlega mikilvægt skref í þá veru. Sem íbúi á þessu svæði ber ég gríðarlega miklar væntingar til þessa. Borgarsvæðið og höfuðborgarsvæðið er gríðarlega dreift og þetta getur orðið til þess að við getum orðið enn betri höfuðborg og enn betra höfuðborgarsvæði. Þetta getur eingöngu orðið til þess að hér verði betra að búa og að við séum ekki háð því eins og við erum í dag að stórar fjölskyldur þurfi helst að vera með tvo bíla vegna fjarlægðanna og vegna þess að við erum ekki með það góðar almenningssamgöngur á höfuðborgarsvæðinu. Það fer auðvitað eftir því hvar fólk býr hvort og hvernig það getur notað strætó og hvort það sé gott fyrir það eða ekki. Í mínu tilfelli til dæmis hjálpar það mér ekki mikið. Ég held að það sé mjög mismunandi eftir því hvar fólk býr hvort strætó henti.

Þetta er líka spurning um það að við erum að stíga inn í 21. öldina. Við erum að fá gríðarlegan fjölda ferðamanna hingað. Við erum sem betur fer ein þeirra þjóða sem fara fjölgandi. Við erum að horfa til þess að samfélagið okkar á eftir að stækka og styrkjast. Ég held að það sé gríðarlega spennandi skoðun sem þarna fer fram og ríkið á að sjálfsögðu að vera þátttakandi í því. Ég sé líka fyrir mér að ríkið eigi að horfa til þess að hugsanlega eigi svona kerfi við víðar um land. Það er eðlilegt að horfa fyrst á höfuðborgarsvæðið, og við erum til dæmis mörg hér sem vonum að atvinnuuppbyggingin á Bakka geti valdið því að þar fari allt svæðið fyrir norðan að styrkjast. Þar gætu orðið möguleikar á lestarsamgöngum milli Akureyrar og bæjanna þar í kring ef við horfum til Siglufjarðar, Dalvíkur, Húsavíkur, en þetta geti bara verið byrjunin hér. Mér finnst þetta gríðarlega spennandi. Svona öflugar lestarsamgöngur geta eingöngu verið til þess að styrkja þau svæði, fyrir austan líka, þar vinna sveitarfélögin mjög vel saman og þar gæti þetta orðið möguleiki í framtíðinni. En einhvers staðar verðum við að byrja. Við þurfum að gera hagkvæmniathugun sem felur í sér að sjónum verði beint að kostnaði þannig að menn geri þetta með opin augun vitandi það hvað þetta muni geta kostað og geti þá gert einhverjar áætlanir, og síðan ávinningi samfélagsins, efnahagslegum, umhverfislegum og skipulagslegum. Þetta er bara bráðnauðsynlegt fyrir hvert samfélag að gera, fara í svona athugun, þannig að við vitum hvaða kosti við eigum. Þetta er það sem stjórnmál snúast um, þ.e. að horfa til lengri tíma en ekki bara til dagsins í dag. Við þurfum að horfa til lengri tíma. Þetta er liður í því og ég fagna þessu mjög.