144. löggjafarþing — 141. fundur,  1. júlí 2015.

athugun á hagkvæmni lestarsamgangna.

101. mál
[11:24]
Horfa

Katrín Júlíusdóttir (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég ákvað að nota tækifærið og þakka hv. þingmanni fyrir að bera þetta mál hér upp í þinginu og koma með það. Mig langar að spyrja hana hreint út hvort það sé ekki rétt skilið hjá mér að menn eigi ekki að blanda einhverri umræðu um Reykjavíkurflugvöll inn í þetta. Þetta mál snýst um framþróun samgangna á höfuðborgarsvæðinu, tengingar við byggðirnar þar í kring, tengingu við stærsta alþjóðaflugvöllinn o.s.frv. Ég held að við ættum að geta samþykkt svona hagkvæmniathugun án þess að fara að hlaupa í einhverjar skotgrafir út af flugvellinum í Reykjavík eins og gert var hér í ræðu áðan af formanni umhverfis- og samgöngunefndar. (Gripið fram í.) Mér finnst skipta gríðarlega miklu máli að við gerum þetta á réttum forsendum og hinar réttu forsendur eru auðvitað byggðin hér og tenging og styrking höfuðborgarsvæðisins alls sem eins atvinnusvæðis. (Gripið fram í.)

Virðulegi forseti. Það eru einhver óþægindi hér í salnum hjá hv. þingmanni. Ég óska þá bara eftir því að hann komi hingað upp í ræðu, ég vona að hann geri það, vegna þess að hann virðist hafa eitthvað um málið að segja. Ég vona að hann geri það. En ég vona að hann sé ekki á móti þessu máli vegna þess að það er alveg gríðarlega mikilvægt fyrir höfuðborgarsvæðið eins og ég kom inn á í máli mínu áðan. Að detta alltaf í einhverja paranoju um að nú hljóti þetta að vera ráðabrugg til þess að losa sig við Reykjavíkurflugvöll er bara algjör della. Ég verð að segja alveg eins og er að þeir sem halda því fram þurfa að kynna sér málin eitthvað betur. Keflavíkurflugvöllur eins og hann er núna getur ekki tekið við innanlandsfluginu sisvona. Það hefur verið rætt um það aftur og aftur að hann sé sprunginn. Menn þyrftu að fara þar í gríðarlegar framkvæmdir ef innanlandsflugið ætti að fara þangað.

Verum með opinn huga. Horfum til þess hvaða gríðarlegu jákvæðu áhrif (Forseti hringir.) þetta gæti haft. Þeir sem búa suður með sjó ættu sérstaklega (Forseti hringir.) að fagna þessu því að þetta getur þýtt gríðarlega styrkingu á því svæði.