144. löggjafarþing — 141. fundur,  1. júlí 2015.

athugun á hagkvæmni lestarsamgangna.

101. mál
[11:26]
Horfa

Katrín Jakobsdóttir (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Ég ætla rétt að vona að hv. þingmenn horfi ekki á þetta mál sem mál sem aðgreini höfuðborgarsvæðið og landsbyggð. Ég er mikill talsmaður samgöngubóta um land allt sem og á höfuðborgarsvæðinu, mitt mat er það, og má sjá það á því hvernig ég hef greitt atkvæði hér í þinginu á þeim átta árum sem ég hef verið hér. Ég veit hins vegar að samgöngubætur eru með ólíkum hætti eftir því hvort við erum að horfa á aðstæður úti á landi þar sem víða eru mjög dreifðar byggðir eða hér á höfuðborgarsvæðinu þar sem byggðin er mjög þétt, þar sem við eigum einmitt tækifærin í því að efla almenningssamgöngur. En við þurfum að horfa á hlutina með dálítið öðrum gleraugum þegar við horfum á dreifðari byggðir. Þetta snýst svo sannarlega ekki um mun á því. Við öll sem erum hér inni hljótum alltaf að hafa hagsmuni alls landsins undir þegar við ræðum þessi mál. Auðvitað hefur þetta ekkert með Reykjavíkurflugvöll að gera. Ef þetta hefði eitthvað með Reykjavíkurflugvöll að gera kæmi það fram í greinargerðinni með málinu. Þar er farið mjög vandlega yfir það að umferðin um Keflavíkurflugvöll hefur auðvitað stóraukist á undanförnum árum, langt umfram í raun og veru þær spár sem menn höfðu áður sett fram. Því er ósköp eðlilegt að við skoðum samgöngur á milli höfuðborgarsvæðisins og Keflavíkurflugvallar.

Á árabilinu 2003–2012 óx fjöldi farþega sem fór um Keflavíkurflugvöll um 40%, fór yfir 1 milljón í fyrsta skipti árið 2012. Árið 2013 var metfjölgun í fjölda erlendra ferðamanna hérlendis, eða 20,7% fyrra árið, þá fóru 781 þúsund erlendir ferðamenn um Keflavíkurflugvöll. Eins og ég kom að áðan í ræðu minni hefur þetta sýnt sig meðal annars í stækkun flugstöðvarinnar, Flugstöð Leifs Eiríkssonar, og við sjáum líka að gríðarleg deigla er í því hvernig byggðin á Suðurnesjum er að þróast. Þetta snýst fyrst og fremst um það hvernig við getum tengt betur ef það er metið hagkvæmt. Auðvitað er ekki verið að leggja til framkvæmdir, hér er verið að leggja til að það verði skoðað af hinu opinbera hvernig við getum komið sem best til móts við þá þróun sem þarna hefur orðið í fjölgun ferðamanna. Ég hef ekki trú á öðru en að hv. þingmenn líti (Forseti hringir.) á það sem ábyrgðarhluta að tryggja að það verði gert sem best, þ.e. að tryggja samgöngur frá alþjóðaflugvellinum í Keflavík.